131. löggjafarþing — 72. fundur,  10. feb. 2005.

Verðbréfaviðskipti.

503. mál
[15:39]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið áhugaverð umræða sem hér hefur farið fram og ég vil leyfa mér að taka undir margt sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson setti fram í máli sínu og er kannski ástæðulaust að endurtaka margt af því sem hann sagði, en kjarni málsins er vitaskuld sá að hér er um að ræða afar mikilvægt svið. Hjá þjóð sem smám saman hefur verið færa sig inn í markaðshagkerfi er gríðarlega mikilvægt að vel takist til við uppbyggingu á verðbréfaviðskiptum og markaði með verðbréf. Þess vegna er afar mikilvægt að menn vandi vel til verka við þá löggjöf sem við stöndum frammi fyrir hér og hugmyndin er að lögleiða Sá sem hér stendur á sæti í efnahags- og viðskiptanefnd og ég trúi því að við munum fara mjög vandlega yfir þetta mál og reyna að tryggja það sem hér verður að tryggja.

Ég held að eitt meginatriðið til að vel takist til við uppbyggingu verðbréfamarkaðar sé að minnihlutaverndin sé tryggð. Það er lykilatriði að almenningur hafi traust og trú á þessum markaði og það gerist ekki nema minnihlutaverndin sé eins vel tryggð og kostur er. Þá gerist það að almenningur er tilbúinn að leggja fjármuni sína á þennan markað, er tilbúinn að taka þátt í honum og tilbúinn að byggja hann upp, því sú stutta saga sem við eigum af verðbréfamarkaði sýnir okkur að þetta er afar viðkvæmt svið. Fyrir nokkrum árum tóku nánast allir á einn eða annan hátt þátt í viðskiptum með verðbréf og voru jafnvel fulldjarfir á stundum að eiga viðskipti á gráa markaðnum. Síðan gerðist það að verðfall varð á þessum verðbréfum og almenningur hljóp í burt eins og fætur toguðu. Þar af leiðandi varð markaðurinn ekki nærri eins virkur næstu árin á eftir. Við verðum að forðast slíka skelli.

Til þess að forðast þá skelli verður löggjöfin að vera í lagi. Þá verður minnihlutaverndin að vera tryggð og það er eitt meginsjónarmiðið sem við í Samfylkingunni munum leggja upp með við yfirferð á því frumvarpi sem hér liggur fyrir sem er nokkuð viðamikið, enda er um að ræða innleiðingu þriggja EES-tilskipana, þ.e. um markaðsyfirtökur, útboðs- og skráningarlýsingar. Hér er því um gríðarlega mikilvægt mál að ræða.

Ég vil í upphafi aðeins nefna það sem við munum leggja megináherslu á. Hins vegar er eitt atriði sem ég vil nefna sem ég er ekki sammála sem kemur fram í frumvarpinu og það er hér merkt e. (72. gr.) sem er sennilega 20. eða 21. gr. í þessu frumvarpi. Ég tel, virðulegi forseti, afar mikilvægt að meginreglan verði sú að Fjármálaeftirlitið birti niðurstöður sínar í málum og athugunum sem þeir gera. Það eigi að vera meginreglan og það sé vísasti vegur til þess að tryggja trúverðugleika á þessum markaði. Það er afleitt að niðurstöður rannsókna, eða mér liggur við að segja upphrópana sem oft og tíðum verða í fjölmiðlum vegna þess að menn telja að ekki hafi verið farið rétt að í viðskiptum á markaði, komi ekki fram fyrr en löngu, löngu síðar og hafi ekki þau varnaðaráhrif sem þær eiga að hafa.

Þess vegna tel ég, virðulegi forseti, og mun tala fyrir því við yfirferð á þessu máli að þessu ákvæði eigi að breyta á þann veg að meginreglan verði sú að þessar niðurstöður í málum og athugunum verði birtar en ekki að Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að gera það og meta það í ákveðnum tilvikum. Jafnvel þó að einhverjar meginreglur verði settar í þessum efnum þá er lykilatriði að skapa trúverðuga umgjörð um þennan markað til þess að hægt sé að byggja hann upp. Lykilatriðið í því er að eftirlitsstofnanir standi sig í stykkinu og þær eigi þátt í að skapa þann trúverðugleika að almenningur sé tilbúinn að fara með peningana sína út á þennan markað. Því hinn venjulegi Jón Jónsson, eins og hér var nefndur áðan, liggur ekki á hverjum degi yfir þróun bréfa, vísitalna og öðru. Hann hefur ekki sama aðgang að upplýsingum og stórir fjárfestar hafa frá degi til dags. Hann hefur ekki sama aðgang að sérfræðingum til að fara yfir og ráðleggja sér á hverjum einasta degi. Hann verður nefnilega að treysta því að reglurnar sem um markaðinn gilda og eftirlitið sem með honum er af hálfu hins opinbera sé í lagi.

Því met ég það svo, virðulegi forseti, að það sé afar mikilvægt að úrskurðir og niðurstöður og athuganir í málum Fjármálaeftirlitsins verði birtar og það sé meginreglan. Fyrir því mun ég og Samfylkingin tala í yfirferð á þessu tiltekna máli.

Ég gat ekki heyrt annað, virðulegi forseti, en að fleiri séu þeirrar skoðunar því ekki hefur verið hægt að skilja þá talsmenn Sjálfstæðisflokksins sem hér hafa látið í sér heyra öðruvísi en svo að þeir séu tilbúnir að tala fyrir þessu einnig. Það segir meira en mörg orð að allt að því 86 þúsund manns, þ.e. frekar kennitölur en einstaklingar, séu tilbúnir að taka þátt í verðbréfaviðskiptum á einu ári.

Þetta lýsir því hversu mikilvægt málið er og að við verðum að fara vel og vandlega yfir það og tryggja að hér verði til markaður með verðbréf sem hafi trúverðugleik og fólk sé tilbúið að taka þátt í honum.

Virðulegi forseti. Þetta vildi ég leggja inn í umræðuna. Eins og ég nefndi áðan á ég sæti í efnahags- og viðskiptanefnd og fæ því gott tækifæri til að fara vel og vandlega yfir einstök ákvæði. Það er afar mikilvægt að vel takist til. Við erum að byggja upp þennan markað og löggjöfin verður vonandi gott innlegg í að byggja upp traustan og trúverðugan verðbréfamarkað. Ég trúi því og treysti að menn geti sameinast á þinginu um að ná góðri niðurstöðu í málinu því hér er um mikla hagsmuni fyrir almenning að ræða.