131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Fjármálaeftirlitið.

45. mál
[15:23]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er fagnaðarefni að þetta þingmál fái stuðning annarra flokka á Alþingi og ég fagna yfirlýsingum hv. þm. Gunnars Örlygssonar, þingmanns Frjálslynda flokksins, í því efni.

Við framsögu hv. þm. Jóns Bjarnasonar, 1. flutningsmanns þessa þingmáls, er litlu að bæta. Málið er til marks um þá áherslu sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur á að eftirlitsstofnanir í samfélaginu séu sjálfstæðar gagnvart þeim aðilum sem viðkomandi stofnanir eiga að hafa eftirlit með og einnig gagnvart framkvæmdarvaldinu. Í greinargerð með þingmálinu minnum við á að á sínum tíma heyrði Ríkisendurskoðun undir framkvæmdarvaldið en 1987 var gerð á því breyting og sú stofnun færð undir Alþingi. Við viljum láta skoða hvort hið sama eigi að gera gagnvart Fjármálaeftirlitinu sem er mun yngri stofnun, var sett á laggirnar 1998 og er sprottin upp úr tveimur stofnunum, þ.e. bankaeftirliti Seðlabanka Íslands og Vátryggingareftirlitinu. Við teljum tíma til kominn að skoða stjórnsýslulega stöðu þessarar stofnunar.

Í ljósi þeirra miklu hræringa sem verið hafa í viðskiptalífinu á undanförnum árum og í ljósi þess að viðskiptaráðherra hefur verið einn umsvifamesti aðilinn í öllu því umróti teljum við brýnt að þessi athugun fari fram.

Ég legg áherslu á að engar breytingar verði gerðar nema að vel athuguðu og ígrunduðu máli og þær verði gerðar í góðu samstarfi við starfsmenn stofnunarinnar og samtök starfsmanna. Það hefur viljað brenna við á undanförnum árum þegar stjórnvöld hafa ráðist í skipulagsbreytingar innan stjórnsýslunnar, jafnvel grundvallarbreytingar á starfsemi stofnana, að vilji starfsmanna og samtaka þeirra sé virtur að vettugi. Þau vinnubrögð eru okkur ekki að skapi enda leggjum við áherslu á það í greinargerð sem fylgir þingmálinu að leitað verði eftir góðu samstarfi við starfsmenn og samtök þeirra.

Að öðru leyti er engu við að bæta við það sem fram kom hjá hv. 1. flutningsmanni þingmálsins, Jóni Bjarnasyni, og vil ég gera hans orð að mínum.