131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Rekstur Ríkisútvarpsins.

49. mál
[15:56]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Við tökum nú til umræðu þingsályktunartillögu okkar, þingmanna í Frjálslynda flokknum, um rekstur Ríkisútvarpsins. Það er ekki í fyrsta skipti sem þessi tillaga er rædd hér í sölum Alþingis. Við erum að byrja að ræða hana í fimmta sinn, hæstv. forseti, þannig að vafalaust er af ýmsu að taka í umræðunni.

Kannski má draga þá ályktun að dropinn holi steininn. Þessi tillaga og önnur umræða sem hefur vissulega farið fram í sölum Alþingis um málefni Ríkisútvarpsins á undanförnum árum eru kannski að verða til þess að eftir langa bið standi til, miðað við yfirlýsingar hæstv. menntamálaráðherra nýlega í fjölmiðlum, að hér komi tillaga eða frumvarp um málefni Ríkisútvarpsins.

Sú tillaga sem við ræðum hér gengur hins vegar akkúrat út á það að skipuð verði nefnd allra þingflokka til að semja frumvarp um breyttan rekstur Ríkisútvarpsins og að nefndin ljúki störfum innan sex mánaða frá samþykkt tillögunnar.

Þessi tillaga hefur aldrei fengist samþykkt í hv. Alþingi. Hún hefur fengið að fara náðarsamlegast í gengum fyrri umr. og inn í menntamálanefnd og þar hafa náttúrlega stjórnarliðar sest á hana eins fast og þeir mögulega geta. Hún hefur aldrei komið þaðan út aftur. Eins og ég sagði í upphafi máls míns er það þó kannski svo að dropinn holi steininn í þessu máli. Þessi tillaga og aðrar umræður sem hér hafa farið fram í hv. Alþingi verða e.t.v. á endanum til þess að einhvern tíma á næstu dögum eða vikum komi inn í Alþingi frumvarp frá hæstv. menntamálaráðherra um málefni Ríkisútvarpsins. Er ekki vanþörf á að á þeim verði tekið.

Þó hefur auðvitað ýmsilegt breyst frá því að þetta mál var rætt hér síðast, m.a. það að það er búið að skipa sérstaka fjölmiðlanefnd sem að lokum allir þingflokkar á Alþingi fengu fulltrúa í. Það fékkst í gegn þegar fulltrúar stjórnarandstöðunnar tóku sig saman um það að annaðhvort fengju allir flokkar aðkomu að nefndinni eða þá að þeir tækju ekki þátt í starfinu. Var þá fjölgað í þeirri nefnd úr fimm í sjö og þannig er hún skipuð í dag.

Eftir því sem ég veit best hefur sú hv. fjölmiðlanefnd sem er að störfum ekki enn þá tekið fyrir beina umfjöllun um Ríkisútvarpið sem slíkt heldur hefur hún verið að skoða ýmislegt annað í fjölmiðlun í landinu. Við höfum m.a. tekið umræðu í hv. þingi og komið inn á það í tengslum við umræðuna um dreifikerfi Símans hvert fjölmiðlun ef til vill væri að stefna í landinu og hvernig Íslendingar hefðu þá aðgang að fjölmiðlum almennt á komandi árum og missirum.

Það er að hluta til önnur umræða, en þó ekki. Ríkisútvarpið er auðvitað ekki minnstur partur af fjölmiðlaflórunni í landinu og ég held að Ríkisútvarpið, rásir þess, og sjónvarp séu í raun og veru þeir fjölmiðlar sem þjóðin í heild sinni gerir mestar og ríkastar kröfur til og vill viðhalda. Þessi tillaga til þingsályktunar er um það að Ríkisútvarpið verði áfram til, því verði tryggður góður rekstrargrundvöllur og tilveruréttur. Það hafi ákveðið og afmarkað hlutverk að því leyti til að það sem við leggjum til í þessari þingsályktun í forskrift fyrir efni þess sem við vildum að yrði tekið fyrir í viðkomandi nefnd sem þingsályktunartillagan gengur út á væri m.a. að Ríkisútvarpið væri fjármagnað á fjárlögum og fengi þaðan meginhluta tekna sinna.

Það væri m.a. skoðað hvort Ríkisútvarpið sem stofnun ætti að starfa í samkeppni á auglýsingamarkaði. Við höfum sagt það í ábendingarpunktum í tillögunni að það væri ekki sjálfgefið að slíkt útvarp, fjármagnað á fjárlögum, væri í fullri samkeppni á auglýsingamarkaðnum. En við höfum jafnframt bent á að að sjálfsögðu yrði slíkt þjóðarútvarp að sjá til þess að vera þátttakandi í auglýsingum um fundi og mannfagnaði og aðrar opinberar tilkynningar sem nauðsynlegar eru þegnum landsins þó að Ríkisútvarpið væri kannski ekki alveg á fullu í þeirri samkeppni að auglýsa eina baunadós eða einhverjar sérstakar vörur, en það væri virkilega í samkeppni um fundi, mannfagnaði og annað slíkt sem skiptir fólk verulega miklu máli, og er ég þá ekkert sérstaklega að gera lítið úr baunadósinni, hún hefur oft komið til umræðu út af ýmsum tilefnum eins og menn muna hér úr fortíðinni. Ætla ég ekki að fara fleiri orðum um það, hæstv. forseti. Þannig er nú málið vaxið.

Í greinargerð með tillögunni segir, með leyfi forseta:

„Tillaga þessi var flutt á 126., 127., 128. og 130. löggjafarþingi og er nú endurflutt.“

Síðan segir:

„Ríkisútvarpið er viðurkennd stoð íslenskrar tungu og menningar. Rekstur þess er ómissandi til að gefa almenningi kost á hvers konar fræðslu- og menningarefni sem aðrir ljósvakamiðlar vanrækja.“ Segjum við nú hér.

Það kann vel að vera að við tökum nokkuð stórt til orða með því að orða þetta svona en ég vil samt benda á að mér finnst að Ríkisútvarpið, sérstaklega hljóðvarpið, hafi staðið sig að mörgu leyti vel við að koma til almennings ýmsu fræðslu- og menningarefni og mun betur en aðrir fjölmiðlar.

Það vill svo til að ég þarf iðulega að ferðast um þjóðvegi landsins og þá er nú einfaldast að stilla á langbylgjuna og hafa bara gufuna á og síðan Rás 2 þegar hún kemur inn o.s.frv. Maður hlustar auðvitað á fjölmarga góða þætti í Ríkisútvarpinu. Það má nefna nokkra til upprifjunar, t.d. Spegilinn, Víðsjá og Þjóðfélagið í nærmynd. Í sjónvarpinu má nefna Í brennidepli og Kastljós. Einnig má nefna umræðuþætti á sunnudögum, Sunnudagskaffi og laugardagsþætti og margt fleira sem Ríkisútvarpið stendur fyrir. Ég tel því að það megi með nokkrum sanni segja að Ríkisútvarpið sinni mjög fjölþættu menningar- og fræðsluhlutverki. En það væri hins vegar vissulega hægt að nota Ríkisútvarpið meira í þeim mæli ef um það væri samstaða og stefnumótunin væri með þeim hætti.

Við segjum í greinargerðinni:

„Slíkur miðill getur ekki verið til öðruvísi en að vera í þjóðareign og fjármagnaður af almenningi úr ríkissjóði. Markaðslausnir geta ekki átt við starfsemi af þessu tagi. Hún er eðli málsins samkvæmt menningar- og fræðsluviðleitni þar sem sóknin eftir arðsemi verður að víkja fyrir mikilvægari markmiðum.“

Ég held að þetta lýsi í raun og veru þeirri hugsun sem við höfum í þessu máli, að við teljum að Ríkisútvarpið þurfi að fá þá stöðu að hafa þokkalegan og nokkuð öruggan rekstrargrunn. Og að sá rekstrargrunnur þurfi að vera markaður og tekjur fyrir starfsemina þurfi að vera markaðar, ekki bara til eins árs í senn og svo sé endalaus slagur alltaf á hverju ári um fjármálin heldur verði að vera markaður rammi til þriggja til fimm ára þar sem nokkuð sé vitað um hvaða stefnu við viljum hafa um rekstur Ríkisútvarpsins, sem við teljum mjög mikilvægt, og að það sé nokkur festa í því hvernig tekjur á fjárlögum koma til Ríkisútvarpsins og á því megi byggja til lengri tíma en árs í senn með nokkurri vissu og nokkrum rökum.

Ég tók eftir því, hæstv. forseti, í viðtali við hæstv. menntamálaráðherra í Morgunblaðinu, að þar var haft eftir ráðherra, með leyfi forseta, svo ég vitni í þá grein:

„Báðir flokkarnir“ — þ.e. ríkisstjórnarflokkarnir — „eru eindregið þeirrar skoðunar að það eigi að hlúa að Ríkisútvarpinu svo það geti svarað kröfum tímans. Það þarf að skerpa á hlutverki Ríkisútvarpsins og tryggja því áfram öruggan sess sem öflugt fyrirtæki.“

Ég velti því fyrir mér hvort þessi orð, þegar verið er að tala um að Ríkisútvarpið verði öflugt fyrirtæki, boði einkavæðingu fyrirtækisins þegar fram í sækir. Það hefði auðvitað verið fróðlegt að hæstv. menntamálaráðherra hefði verið hér viðstödd umræðuna en ég veit að hún er erlendis og ekkert við því að gera. En ég vil vekja athygli á þessum ummælum hæstv. menntamálaráðherra, að hún orðar þetta með þeim hætti að segja „öflugt fyrirtæki“. Við erum í þessari tillögu okkar að tala um stofnun utan um Ríkisútvarpið og að Ríkisútvarpið fái sérstaka öfluga yfirstjórn og að það verði í raun og veru tekið eins og hægt er undan pólitískum áhrifum og pólitískum stýringum. Ég veit því ekki alveg hvernig á að skilja þessi orð hæstv. menntamálaráðherra og eins og ég sagði er hún ekki hér viðstödd til þess að svara fyrir það.

En ég sé að menntamálaráðherra er sammála okkur sem flytjum þessa tillögu um að það sé mikils virði að Ríkisútvarpið haldi velli og standi vörð um íslenskt mál og íslenskt málsvæði o.s.frv. Við erum algjörlega sammála um það og teljum það mjög mikilvægt hlutverk.

Auðvitað má segja sem svo, eins og sagt var hér í umræðu um þetta mál síðast þegar það var rætt, og það var hv. þm. Mörður Árnason sem sagði það, að Ríkisútvarpið hefði verið í pattstöðu mörg undanfarin ár og ég get alveg tekið undir það að að sumu leyti hefur það verið í pattstöðu. Það hefur aldrei verið vitað hvert við ætluðum að fara með Ríkisútvarpið og ummæli stjórnarliða í þá veru hafa verið mjög misvísandi.

Ég get leyft mér að vitna í ummæli eins þingmanns, hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, en hann sagði:

„Ég verð að segja fyrir mína parta að ég get ekki séð að það séu nein önnur lögmál sem gildi um rekstur fjölmiðla en annarra fyrirtækja.“

Hefði nú verið fróðlegt að minnast stundum á þetta í umræðunni um fjölmiðlalögin og þá uppákomu alla á sínum tíma.

En við höfum sem sagt þá skoðun að það þurfi akkúrat að marka Ríkisútvarpinu öðruvísi stöðu en annarra fyrirtækja og að tryggja þurfi rekstur þess. Þess vegna get ég alveg tekið undir orð hv. þm. Marðar Árnasonar að Ríkisútvarpið hefur á undanförnum árum verið í þeirri pattstöðu að það hefur verið algjör óvissa um framtíð þess og alveg hárrétt hjá þingmanninum þegar hann vék að því að þannig hafi það verið.

Við flytjum þessa tillögu enn á ný í þeirri von að dropinn holi steininn og að það megi búa svo um starfsemi Ríkisútvarpsins til framtíðar að þjóðarhagsmunum sé þar þjónað og að við höfum öll sóma og ánægju af því og þeim efnum sem þar verða flutt.