131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Rekstur Ríkisútvarpsins.

49. mál
[16:22]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég á eitthvað má ég nota það, ég má veðsetja það og ég má selja það. Þetta er skilgreining á eignarréttinum. Ekkert af þessu geri ég, hvorki við þjóðareign, sjálfseignarstofnun né ríkiseign. Ríkið er lögaðili í þjóðfélaginu. Ríkið sækir skatta til fólks, setur það meira að segja í fangelsi ef það stendur ekki skil. Það er því langt í frá að skattgreiðandinn eigi eitthvað í peningunum sem ríkið ætlar að taka af honum. Og að breyta Ríkisútvarpinu í sjálfseignarstofnun, það er að fara úr öskunni í eldinn því í staðinn fyrir að einhver einn aðili eigi Ríkisútvarpið þá á það enginn. Bara akkúrat enginn. Það á sig sjálft. Ég held að það sé nú ekki til bóta.

Og einhverjar hugleiðingar um þjóðareign eða eitthvað slíkt. Hvernig getur þjóðin t.d. farið og veðsett eignina sína? Hvernig getur hún notað hana? Þjóðin er náttúrlega ekkert annað en hópur af fólki og þá ætti hver og einn að geta gengið um eignina og farið í útvarpið og náð sér í stól.