131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Rekstur Ríkisútvarpsins.

49. mál
[16:42]

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka undir þetta mál.

Ég vil víkja að auglýsingum og auglýsingatekjum sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni. Það er auðvitað umdeilanlegt hvernig eigi með það að fara en við segjum m.a. í greinargerð með þessari tillögu, með leyfi forseta:

„Markaðslausnir geta ekki átt við starfsemi af þessu tagi. Hún er eðli málsins samkvæmt menningar- og fræðsluviðleitni þar sem sóknin eftir arðsemi verður að víkja fyrir mikilvægari markmiðum.“

Síðar er sagt hér á öðrum stað eitthvað á þá leið að við leggjum til að Ríkisútvarpið verði ekki fjármagnað með beinum viðskiptaauglýsingum þó að vissulega sé verið að sækjast eftir auglýsingum, eins og segir hér, með leyfi forseta:

„Útvarpið hætti að flytja viðskiptaauglýsingar í samkeppni við aðra fjölmiðla, en flytji áfram tilkynningar frá opinberum aðilum, félagasamtökum og öðrum sambærilegum aðilum.“

Við erum ekki að leggja til að Ríkisútvarpið fari algjörlega út af auglýsingamarkaði en við leggjum til að það keppi ekki um auglýsingar á ávöxtum og — hvað nefndi ég áðan? — baunadósum og fleiru. Það er í raun það sem við eigum við. En við viljum vissulega að Ríkisútvarpið taki þátt í samkeppni um auglýsingar um fundi og mannfagnaði og aðrar tilkynningar sem þurfa að komast til þjóðfélagsins, ég tala nú ekki um öryggistilkynningar. Að öryggishlutverkinu höfum við ekki komið. Ég mun ræða það síðar við umræðuna.