131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Rekstur Ríkisútvarpsins.

49. mál
[16:46]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Eins og komið hefur fram gefst hér ágætistækifæri til að ræða um Ríkisútvarpið. Ég held að það liggi fyrir að margir á Íslandi, ekki bara í þessum sal, sem hafa skoðanir á þeirri stofnun, fyrir hvað hún á standa og hvað hún á að gera. Það er væntanlega ástæðan fyrir því hve hægt gengur að breyta þar, jafnvel þótt menn hafi mjög sterkar skoðanir virðist erfitt að ná samstöðu um hvernig það skuli vera gert. Ég held að það sé óumdeilt að þjóðinni, ef þannig má að orði komast, eða í það minnsta mjög mörgum er mjög annt um þessa stofnun enda gerir hún margt mjög vel.

Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á því hvernig er hægt að gagnrýna hæstv. menntamálaráðherra fyrir að ræða um Ríkisútvarpið og það að hún hafi hug á að koma með lagafrumvarp um stofnunina. Ég átta mig ekki á því hvernig er hægt að gagnrýna ráðherra fyrir slíkt en þó er ýmislegt hægt að gera ef viljinn er fyrir hendi.

Ég held að það skipti miklu máli og sé grundvallaratriði að menn skilgreini hlutverk Ríkisútvarpsins. Til hvers er Ríkisútvarpið og hvað á Ríkisútvarpið að gera? Hvað telja menn eðlilegt að einkaaðilar sjái um? Ég held að það hafi í raun aldrei verið gert almennilega. Í það minnsta held ég að í breyttu fjölmiðlaumhverfi vanti mikið upp á að það sé vel skilgreint fyrir hvað Ríkisútvarpið á að standa og hvað það á að gera.

Sömuleiðis má breyta mörgu. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. menntamálaráðherra að uppi séu hugmyndir um að leggja niður afnotagjöldin. Það eru margir gallar við annars konar fyrirkomulag en ég efast um að hægt sé að finna mikið verra fyrirkomulag en er í dag. Þetta er dýrt innheimtukerfi. Hafi það einhvern tímann verið við hæfi að ágætir starfsmenn stofnunarinnar reyndu að hlusta eftir og komast inn til fólks til að kanna hvort viðkomandi hafi einhver viðtæki þá er það örugglega ekki við hæfi lengur. Ég efast reyndar um að svo hafi nokkurn tímann verið.

Ráðherra nefndi að í staðinn gæti komið annars vegar nefskattur og hins vegar fjárlög. Hv. þm. Ögmundur Jónasson ræddi um að festa það við fasteign, sem ég veit ekki hvernig menn ætla að þróa. Ég hef ekki heyrt þá hugmynd áður. Ég hugsa að sanngjarnasta leiðin sé nefskatturinn. Ef menn hugsa um hvað menn eru að borga fyrir þá er það væntanlega að hafa aðgang að og geta hlustað á þennan miðil. Það gildir væntanlega um alla landsmenn.

Ég ætlaði að leyfa mér að velta upp ýmsum hugmyndum mínum um hvað væri hægt að gera og hvernig hægt væri að skilgreina hlutverk Ríkisútvarpsins. Ég hef oft, löngu áður en ég kom á þing, rætt um þau mál. Ýmsar röksemdir hafa komið fram um af hverju þyrfti að hafa ríkisútvarp. Öryggissjónarmið voru ein þótt minna hafi borið á þeim í umræðunni upp á síðkastið. Síðan hafa sterkustu rökin verið þau að þetta sé stofnun til að viðhalda íslenskri menningu og íslenskri tungu. Þau rök hafa einnig verið dregin fram að til þess að svo mætti vera þyrfti samt sem áður að hafa þar mjög blandaða dagskrá til þess að menn fengju fjölbreytnina.

Hins vegar hafa einkaaðilar sýnt fram á það betur en margir hugðu að þrátt fyrir að það sé dýrt að halda úti íslensku efni þá er hægt að gera það ódýrar en menn töldu áður. (Gripið fram í.) Það er mjög vinsælt. Ég held að það sé óumdeilt að þegar menn skoða hlustendakannanir þá er íslenskt efni mjög vinsælt. Ég tel að í það minnsta meginefni Ríkisútvarpsins, ef ekki allt, ætti að vera íslenskt efni. Þannig sé ég hlutverk Ríkisútvarpsins.

Ég átta mig ekki á því svona í seinni tíð af hverju sú ágæta stofnun er að eltast við t.d. þýska boltann og annað af því tagi. Það eru líka til íslenskar íþróttir, sem Ríkisútvarpið sinnir að vísu ágætlega en það gæti örugglega gert betur hvað það varðar.

Á sama hátt tel ég ekki sjálfgefið að Ríkisútvarpið þurfi að taka þátt í öllu því sem fjölmiðlar almennt gera. Það var nokkuð deilt um það þegar Ríkisútvarpið fór út í vefverslun og síðan hefur það auglýsingatekjur eins og menn þekkja. Mér fyndist koma til greina að menn mundu skilgreina nánar hvar auglýsingatekjurnar eiga að vera. Mér finnst t.d. alveg koma til greina að skoða hvort þeir færu af hljóðvarpsauglýsingamarkaði og mundu á móti sleppa því að greiða framlag til Sinfóníunnar, sem er kannski ekki alveg rökrétt að stofnunin geri. Einhvern tímann þegar ég skoðaði þá þætti voru þetta sambærilegar upphæðir en nú veit ég ekkert um það. Síðan hefur margt breyst og getur verið að upphæðirnar þar séu aðrar.

Það kæmi mér á óvart ef það væri sátt um hugmyndir eins og þessar frekar en aðrar um Ríkisútvarpið. Menn hafa ýmsar skoðanir á því, kannski sem betur fer. Ég held hins vegar að það væri mjög æskilegt að þegar frumvarpið kemur fram þá mundu menn sættast á betur skilgreint hlutverk Ríkisútvarpsins og hvaða hlutverki það hefur að gegna í íslensku þjóðlífi. Ég átta mig ekki alveg á því þegar menn hefja í umræðunni hástemmdar lýsingar á því að þetta sé þjóðareign og eitthvað allt öðruvísi en aðrir hlutir. Þetta er auðvitað bara fyrirtæki sem rekið er af ágætisfólki. Það væri gott fyrir það, fólkið sem stendur í þessum rekstri og vinnur þarna, að skilgreina innan hvaða ramma fyrirtækið skuli starfa á íslenskum fjölmiðlamarkaði.

Það er sannarlega líka gott og mikilvægt fyrir þá einkaaðila sem keppa á þessum markaði að það sé vel skilgreint hvar mörk samkeppnisaðilans, sem Ríkisútvarpið eðli máls samkvæmt verður alltaf, eru dregin. Það er markmið í sjálfu sér að reyna að skapa umhverfi til þess að á fjölmiðlamarkaði verði jafnfjölbreytt starfsemi einkaaðila, hvort sem það er í ljósvaka- eða prentmiðlun. Við höfum oft rætt það og ég ætla ekki að fara nánar út í þá umræðu. En það á að vera markmið í sjálfu sér.

Virðulegi forseti. Ég vonast til þess að á vorþinginu getum við átt góðar umræður um stöðu stofnunarinnar.