131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Rekstur Ríkisútvarpsins.

49. mál
[16:55]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hér var margt af viti sagt miðað við aðstæður, menntun og fyrri störf hv. þingmanns. Ég verð þó að segja að mér kemur á óvart að hann þurfi að leita sérstakra skilgreininga á hlutverki Ríkisútvarpsins. Eðlilegt hlutverk Ríkisútvarpsins og það sem það hefur stefnt að að vera í kjarna sínum frá upphafi er að vera almannaútvarp, orð sem ég og félagar mínir, á þingmálum sem hér hafa komið fram en hafa því miður ekki verið rædd, höfum valið sem íslenskan fulltrúa útlenskunnar „Public Service Radio“. Til er um það ágæt skilgreining í svokallaðri Prag-samþykkt frá 1994 sem Íslendingar voru með í. Ég er með þá skilgreiningu í níu liðum en skal hlífa þingheimi við nema þremur þeim fyrstu, með leyfi forseta:

„1. Að mynda með dagskrá sinni sameiginlega viðmiðun allrar þjóðarinnar. Vinna að félagslegri samstöðu og þátttöku allra einstaklinga, hópa og byggðarlaga í samfélaginu. Sérstaklega skal þar hafnað allri menningarlegri, kynbundinni, kynþáttar- eða trúarlegri mismunun og félagslegum aðskilnaði í hvaða mynd sem er.

2. Skapa vettvang almennrar umræðu þar sem fram komi svo fjölbreytilegar skoðanir og sjónarmið sem unnt er.

3. Annast hlutlægan og óháðan flutning upplýsinga, frétta og fréttaskýringa.“

Síðan koma sex liðir í viðbót.

Þetta er hin evrópska skilgreining á almannaútvarpi. Útvarp sem er ekki endilega í ríkiseigu, það er ekki forsendan, en rekið með ákveðið hlutverk fyrir augum sem menn eru þokkalega sammála um um alla Evrópu. Meira að segja í Bandaríkjum Norður-Ameríku er til almannaútvarp af þessu tagi. Það hefur að vísu farið öðruvísi um það í sögunni. Það er mjög lítið og hefur lítið vægi miðað við markaðsstöðvarnar.

En þetta er hlutverk Ríkisútvarpsins, að vísu ekki yfirlýst með þeim hætti sem ég er hér að lýsa. En þetta held ég að við getum verið sammála um. Er ekki svo, forseti, að við hljótum að geta verið sammála um það, ég og hv. þingmaður, að Ríkisútvarpið eigi að sinna þessu hlutverki (Forseti hringir.) og draga þá úr öðrum hlutverkum eftir því sem einkaaðilar taka þau að sér?