131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Rekstur Ríkisútvarpsins.

49. mál
[17:03]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég held að umræður um Ríkisútvarpið og um fjölmiðlana á Íslandi ættu að byggjast á skilgreiningunni um almannaútvarp, á skilningi á því hvaða þörf er fyrir það og hvernig á að skipa á hverjum tíma hlutverkum þess annars vegar og hins vegar markaðsstöðva eða sjálfstætt starfandi stöðva eða hvað sem við viljum kalla þær stöðvar sem ekki eru almannaútvarp, að sú skilgreining sé góður grunnur undir umræðuna.

Ég fagna því að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson tekur með nokkrum hætti undir þetta og sérstaklega þeirri stefnubreytingu hans að þörf sé á þess konar útvarpi, því ég man ekki betur og verð þá leiðréttur ef það er rangminni að hann hafi verið með á tillögu hv. þm. Péturs H. Blöndals og fleiri sjálfstæðismanna í fyrra um að leggja Ríkisútvarpið niður og breyta því í einhvers konar menningarsjóð. (PHB: Selja það.) Selja það, fyrirgefðu. Ég man aldrei hvort á að leggja það niður eða selja það. Það er eins og með Rás 2 sem átti að selja á einhverjum uppboðsmarkaði. Það er ánægjulegt en þá verður líka að hafa í huga að almannaútvarpið verður að geta haft tvennt:

Í fyrsta lagi ákveðinn kraft til að gegna því hlutverki sínu að hafa áhrif á fjölmiðlavettvanginn allan, á ljósvakavettvanginn allan. Það verður að vera nógu sterkt, nógu öflugt til þess að það sé ekki bara einhver rödd hrópandans í eyðimörkinni með einhver málefni minnihlutahópa, jaðarbyggða eða eitthvað þvíumlíkt, heldur að það geti gegnt því hlutverki að veita markaðsstöðvunum ákveðna forustu í samræmi við það hlutverk sem ég taldi m.a. upp áðan.

Í öðru lagi verður almannaútvarp, og þar hefur Ríkisútvarpið því miður ekki getað staðið sig nógu vel í öll þau ár sem það hefur lifað, að vera sjálfstætt, að njóta sjálfstæðis annars vegar frá stjórnmálaöflum sem vilja teygja það og toga í ákveðna átt vegna þess að í því felist ákveðið áróðursgildi og hins vegar frá markaðsöflunum. Markaðsöflin er kannski ekki réttnefni því þau eru framboð og eftirspurn og framboð og eftirspurn verður að vera í ríkisútvarpi og almannaútvarpi eins og annars staðar. Hins vegar frá viðskiptalegum sérhagsmunum. Það má ekki láta stjórnast af viðskiptalegum sérhagsmunum. Það kemur umræðunni áðan um auglýsingar í almannaútvarpi við, hvað þetta geti verið mikill þáttur í því. Þar tek ég fyllilega undir með flutningsmönnum frumvarpsins að það er ekki eðlilegt að auglýsingar og kostun sé mjög stór hluti af tekjuöflun almannaútvarps. Það er eitt af því sem við verðum að horfast í augu við í framtíðinni, að bæði eru miklar kröfur um það frá markaðsstöðvunum að þær fái að sitja að þessu en líka er alltaf að verða meira og meira áberandi að dagskrárframboð Ríkisútvarpsins, dagskrárstefnan, og þar stendur hnífurinn í kúnni hvort um almannaútvarp er að ræða eða ekki, það er ekki eignarhaldið heldur dagskrá Ríkisútvarpsins, það er alltaf meiri og meiri hætta á því að hún beri keim af sókn Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkað í grimmilegri samkeppni við markaðsstöðvarnar. Þetta er því vont fyrir fyrirtækin sem eru að hasla sér völl á þessu sviði og líka vont fyrir Ríkisútvarpið.

Þetta horfum við framan í og hæstv. menntamálaráðherra virðist gera það líka, vegna þess að hún er hér með svolítið skrýtna umræðu um Eftirlitsstofnun EFTA og athugasemdir hennar við Ríkisútvarpið, umræðu sem ég hefði gjarnan viljað geta borið undir hana, því þó Fréttablaðið sé prýðilegt blað og sá fréttamaður ágætur sem skrifaður er fyrir fréttinni getur ýmislegt misfarist milli manna í slíkum fréttaflutningi. A.m.k. virðist ráðherra vera að fara yfir þetta þar sem hún talar um meinta ríkisstyrki af hálfu ESA. Ég sé ekki betur en þeir ríkisstyrkir hljóti að felast í því ástandi að almannaútvarpsstöðin, sú sem við viljum að sé Ríkisútvarpið, njóti annars vegar afnotagjalda, skyldugjalda og skatts sem ríkisvaldið stendur fyrir að hún fái og hins vegar að hún geti staðið í samkeppni við hinar stöðvarnar. Ákaflega einfalt dæmi en lausnin er kannski ekki einföld út úr þessu.

Það er rétt hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að það á ekki að pirra sig á því að hæstv. ráðherra lýsi loksins einhverjum skoðunum á þessu efni og ekki verið að kvarta undan því. Verið er að kvarta undan því hvað skoðanirnar eru óskýrar. Ráðherrann kemur og segir á einum stað í flenniviðtali að það eigi að leggja afnotagjöldin niður og ekki orð meira. Á öðrum stað daginn þar á eftir segir hún að hún ætli að gera þetta á næstu fjórum vikum en a.m.k. þrennt komi til greina og ekkert sé vitað um hvernig það er. Hún gerir enga frekari grein fyrir því og setur þess vegna engan frekari grundvöll undir umræðu um þessi mál.

Fjármögnun, það eru ýmsar hugmyndir uppi um það. Ég ætla ekki að taka hinar nokkru sekúndur sem eftir eru í þær en það þarf fyrst og fremst að gera tvennt: Annars vegar að sjá til þess að almannaútvarpið sé ekki um of háð ríkisvaldinu, ekki um of háð einstökum stjórnmálahagsmunum og allra síst ráðandi öflum á hverjum tíma. Hún þarf líka að vera þannig að hún gangi ekki á rétt fyrirtækjanna í greininni til að afla sér tekna.

Við þurfum að finna lausnina einhvers staðar þarna á milli. Hugsanlega felst hún í langtímasamningum Ríkisútvarpsins um fjárveitingar á fjárlögum, 10 eða 12 ára samningum sem eru ekki háðir setutíma ríkisstjórna. Hugsanlega felst hún í einhvers konar blöndu af leiðum, hægt væri að hafa langtímasamningana og jafnvel einhverja skattheimtu að auki í formi nefskatts eða fasteignaskatts sem hefur verið ræddur og er tíðkaður að ég hygg annars staðar, a.m.k. eru til dæmi þar um. Til eru reyndar fleiri leiðir, t.d. rásagjald ef rásir reynast vera verðmæti sem við sjáum ekki alveg fram í tímann, að það gjald á fyrirtækin komi almannaútvarpsstöðinni til góða. Það væri einhvers konar sátt sem fælist í því að á meðan almannaútvarpið dregur sig að mestu úr auglýsinga- og kostunarslagnum fengi það einhvers konar sjálfkrafa mola úr þeim slag líka með auglýsingagjaldi. Þetta eru allt hugmyndir sem má ræða.

Sjálfstæðið er hins vegar það allra mikilvægasta og um það sjáum við ekkert í hinum nokkru orðum menntamálaráðherra. Við þurfum að tryggja það vel því það hefur auðvitað verið einn helsti gallinn á Ríkisútvarpinu síðari áratugina, ég ætla ekki að fara í þá fyrri, að þess hefur ekki gætt. Það sem er grátlegast og verst í því er að það hefur einn stjórnmálaflokkur haldið um stjórnartauma hjá Ríkisútvarpinu og er meira og minna að ganga að því dauðu ef ekki verður við brugðist á allra næstu missirum.