131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Rekstur Ríkisútvarpsins.

49. mál
[17:11]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að spyrja hv. þm. Mörð Árnason út í eitt atriði sem er kannski ekki stórt en ég er að reyna að átta mig á því. Hv. þingmaður tók fram að ekki væri verið að gagnrýna hæstv. menntamálaráðherra fyrir að ræða málið og ræða um að koma með frumvarp í vor. Það sem hv. þingmaður gagnrýndi hæstv. ráðherra fyrir er að þegar hún talaði um að leggja af afnotagjöldin og koma í staðinn með nefskatt eða setja stofnunina hugsanlega á fjárlög væri það ekki grunnur að umræðu fyrir okkur að taka.

Ég átta mig ekki alveg á þessu vegna þess við höfum einmitt verið að ræða mjög mikið fullyrðingar hæstv. ráðherra og ég mundi ætla að þetta væri ágætisgrunnur til að ræða á. Hvað á hv. þingmaður nákvæmlega við; er það ekki grunnur eins og í þessu tilfelli þegar hæstv. ráðherra kemur með yfirlýsingu um að hún ætli að leggja fram frumvarp og í því muni felast að leggja niður afnotagjöldin og tilgreina einhverjar leiðir? Er það ekki nákvæmlega grunnur til þess að ræða?