131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Rekstur Ríkisútvarpsins.

49. mál
[17:13]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Nei. Mér finnst það ekki góður grunnur því við vitum ekki í hvaða samhengi við ræðum hlutina. Það sem ég gagnrýni hæstv. menntamálaráðherra fyrir er sú leynd og það pukur sem virðist einkenna afskipti hennar og ráðagerðir um Ríkisútvarpið. Ég hélt að hún hefði lært það og fleiri hæstv. ráðherrar að það er ekki besta leiðin til að koma málum fram ætli menn sér að gera það í raun og veru. Það sýndi fjölmiðlamálið ágætlega í vor þar sem menn ruku upp til handa og fóta og hæstv. menntamálaráðherra geymdi fjölmiðlaskýrsluna í níu daga hjá sér meðan hún var að ákveða hvað væri í pípunum.

Það sem manni dettur strax í hug miðað við reynsluna af núverandi ríkisstjórn og fyrirrennurum hennar er að pukrið og leyndin stafi af því að ekki er búið að ákveða hlutina, að ekki er búið að semja við þá sem á að semja við, að Framsóknarflokkurinn — nú gengur í salinn einn af sérfræðingum Framsóknarflokksins í Ríkisútvarpsmálum, hv. þm. Dagný Jónsdóttir, sem væntanlega talar á eftir og svarar þeirri spurningu — að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafi einfaldlega ekki verið búnir að koma sér saman um hlutina þangað til nú. Síðan þegar flokkarnir eru loksins búnir að koma sér saman, sem gerist á næstu fjórum vikum, eigi að fara að keyra í gegn það frumvarp sem þá verður til. Þetta er ekki leiðin til þess að fjalla um nokkurn hlut og sérstaklega ekki í Ríkisútvarpi því litið er á það sem þjóðareign. Það er litið svo á að við eigum það öll og við eigum öll að fá að ræða það, hversu erfitt og seinlegt sem það er. Við eigum ekki að gera breytingar á Ríkisútvarpinu nema um það sé töluverð sátt og menn viti hvert menn ætla með það.

Þetta á auðvitað að gagnrýna hæstv. menntamálaráðherra fyrir. Hæstv. menntamálaráðherra á að hætta þessu háttalagi og skýra okkur strax frá því þegar hún kemur aftur úr ferð sinni, sem ég veit ekki hver er en hlýtur að vera ofsalega mikilvæg, hvað hún ætlar sér með ekki bara með afnotagjöldin, heldur Ríkisútvarpið í heildina.