131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Rekstur Ríkisútvarpsins.

49. mál
[17:17]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það eru auðvitað sérkennileg vinnubrögð af hálfu ráðherra sem fer með málefni Ríkisútvarpsins að þegar endurskoða á lög um Ríkisútvarpið séu settir til þess menn sem enginn veit hvað heita. Þeir eiga að fást við verk sem hvergi sést skilgreint opinberlega og þeir eiga að passa sig á því að tala ekki við nokkurn mann um það sem þeir eru að gera. Enginn starfsmaður Ríkisútvarpsins sem ég veit til, enginn stjórnmálamaður sem ég þekki, hvorki í stjórnarandstöðunni né í ríkisstjórnarliðinu, enginn fjölmiðlamaður eða fjölmiðlafræðingur veit nokkurn skapaðan hlut um þetta mál. Meira að segja útvarpsstjórinn, sem fyrrverandi menntamálaráðherra skipaði til fimm ára fyrir að ég hygg tveim árum og situr þess vegna í þrjú ár í viðbót og hlýtur þess vegna að eiga að framkvæma þessi lög að mestum parti, sagði 31. október þegar hann var spurður á aðalfundi Hollvinasamtaka Ríkisútvarpsins að hann hefði ekkert frétt um þessi mál, hann vissi ekkert um þau. Hann vissi ekki hverjir væru að undirbúa þau, það hefði ekkert verið rætt við hann um þetta. Það er skrýtið, það er furðulegt að menntamálaráðherra hagi sér með þessum hætti.

Nú skulum við vona að menntamálaráðherra, sem er þegar farin að láta út lítinn dreitil af því sem um er rætt og er m.a. komið í ljós að ekki er enn þá búið að semja við samstarfsflokkinn eða finna út hvað á að taka við af afnotagjöldunum sem þó er búið að ákveða að leggja niður, við skulum vona að menntamálaráðherra læri af þessu og hún ætli sér sem sé áfram í Morgunblaðsviðtölum og öðrum fjölmiðlum að segja landslýð, starfsmönnum útvarps, áheyrendum þess og áhorfendum og okkur þingmönnum hvað hún ætlast fyrir þannig að við getum undirbúið okkur undir þessa umræðu. Batnandi manni er best að lifa og við bíðum þess á næstu fjórum vikum hvað verða vill hjá ráðherranum.