131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Rekstur Ríkisútvarpsins.

49. mál
[17:21]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Fyrst þetta, hafi það ekki verið ljóst: Ég tel að það eigi að vera breið dagskrá og hlutverk almannaútvarps sé breið dagskrá. Ég er ekki að tala um að fleygja öllum sápum út eða sýna aldrei heimsmeistarakeppnina í fótbolta eða eitthvað álíka, menn verða hins vegar að hafa forgangsröðina í lagi og vita hvaða hlutverki þeir þjóna.

Um auglýsingar og kostun verð ég að segja að enda þótt til séu mjög vond dæmi um kostun eru líka til dæmi um kostun sem eru allt í lagi, t.d. það sem ég nefndi, heimsmeistarakeppnin í fótbolta, hún er alveg augljós og það vita allir hvað er að gerast, eða Evróvisjónkeppnin eða eitthvað annað slíkt. Ég geri ekki mjög mikinn mun á þessu. Ég tel að það sé praktískt viðfangsefni sem gæti tekið kannski 10, 15, 20 ár að draga úr vægi auglýsinga og kostunar í Ríkisútvarpinu sem almannaútvarpi. Ég er sammála flutningsmönnum um að einhver púrítanismi í því væri fáránlegur. Það væri út í hött ef við nytum ekki þeirrar þjónustu að fá að heyra um fundi og mannfagnaði og svona minni háttar auglýsingar og tilkynningar í því útvarpi.

Ég held að til þess að draga úr þessu vægi séu ýmsar leiðir sem geta bæði svarað kvörtunum auglýsenda sem orðið hefur vart við þegar minnst er á þetta og líka linað þjáningarnar fyrir Ríkisútvarpið sjálft. Á bak við þetta verður auðvitað að standa eindreginn vilji eigendanna, fulltrúa eigendanna, til að halda áfram rekstri almannaútvarpsins því það er þá ljóst að jafnvel þó að eitthvað dragi úr heildarumfangi Ríkisútvarpsins með breytingunni, sem ég reyndar efast um, yrði meira að koma til. Það gerist ekki öðruvísi, ef við leggjum niður hin svokölluðu afnotagjöld, en í formi fjárveitinga frá Alþingi eða einhvers konar heimilda til skattheimtu af öðru tagi.