131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Rekstur Ríkisútvarpsins.

49. mál
[17:25]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vona að við séum í meginatriðum sammála um þetta. Ég er þó ekki alveg viss. Með auglýsingar og kostun held ég og hef haldið í nokkur ár og við fleiri samfylkingarmenn, sem kemur fram í þingsályktunartillögu okkar sem ekki er til umræðu hér heldur þingsályktunartillaga Guðjóns A. Kristjánssonar og félaga en samsvarandi trú er í henni, að það gangi ekki öðruvísi að búa til hér almennilegt almannaútvarp við hliðina á markaðsstöðvunum en að skera niður auglýsingar og kostun eða takmarka það frá því sem nú er í einhverjum áföngum eins og ég sagði.

Fyrsta ástæðan er hreinlega sú að almannaútvarpið hefur ekki gott af þessu, a.m.k. ekki í miklum mæli, um það erum við sammála, ég og hv. þm. Ögmundur Jónasson.

Önnur ástæðan er sú að eitthvað verða markaðsstöðvarnar að fá að éta. Það á að gjalda guði það sem guðs er og keisaranum það sem keisarans er. Það verður að komast á einhvers konar sátt, forseti fyrirgefur þó að ég noti þetta mikla tískuorð, milli markaðsstöðvanna annars vegar og almannaútvarpsins hins vegar, þannig að hvor virði annan í því efni.

Í þriðja lagi er hæstv. menntamálaráðherra að segja okkur, að vísu í gegnum Fréttablaðið í einhverjum símskeytastíl, að Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, sé að gera athugasemdir við Ríkisútvarpið. Ef ég get lesið rétt úr þessari spá völunnar í menntamálaráðuneytinu hljóta þær athugasemdir einmitt að varða það að ekki sé eðlilegt að opinber útvarpsstöð geri tvennt í einu, sé annars vegar að fá jafngildi ríkisstyrkja, annaðhvort með beinum fjárveitingum eða skattheimildum, og sé hins vegar í samkeppni við einkafyrirtæki á auglýsingamarkaði. Við getum svo, eins og oft er nú gagnvart ESB, rætt hvort það er rétt eða ekki, en við verðum að bregðast við því. Þess vegna hlakka ég mjög til að fá hæstv. menntamálaráðherra heim aftur til að gefa okkur skýrslu eins snemma og verða má um einmitt þetta atriði hér á þinginu.