131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

50. mál
[18:33]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög yfirgripsmikla og góða ræðu. Í fyrsta lagi fullyrðir hann að forsetinn hafi stjórnskipulegt hlutverk. Ég fullyrði að hann hafi það ekki, hann hafi ekkert praktískt stjórnskipulegt hlutverk utan þess sem kann að hafa breyst síðastliðið sumar með því að hann tók sér ákveðin völd.

En samanburðurinn við hin nýfrjálsu ríki sem hv. þingmaður kom inn á er dálítið skemmtilegur af því að í fimm af þessum ríkjum er forsetinn þingkjörinn, nákvæmlega eins og lagt er til hér, nema hér heitir hann forseti Alþingis. Það er eini munurinn. Hann heitir forseti Alþingis en ekki forseti lýðveldisins og hefur vissulega minna hlutverk. Í 3. gr. frumvarpsins segir t.d.:

„Forseti Alþingis kveður til forsætisráðherra. Forsætisráðherra skipar ráðherra og veitir þeim lausn.“

Það er sem sagt gert ráð fyrir því að frumkvæði forseta Alþingis sé í því að mynda ríkisstjórn að þessu leyti, svo fremi sem það er eitthvað.

Ég ætla ekki að fara nákvæmlega ofan í einstakar greinar, enda er það ekki meiningin við 1. umr. á Alþingi, en ég nefni t.d.:

„Forseti Alþingis getur með samþykki meiri hluta Alþingis rofið Alþingi.“

Hann er því með mikið af þeim formlegu völdum sem menn kalla í þessum ríkjum. Munurinn er sá að hann heitir forseti Alþingis og þau völd sem hann hefur eru raunveruleg, en annars fari ráðherrar og forsætisráðherra með t.d. samninga við erlend ríki.