131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

50. mál
[18:57]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hóf mál sitt á því að segja að sá er hér stendur hafi farið mikinn. Hv. þingmaður fór ekki mikinn. Hins vegar fór hv. þingmaður Pétur Blöndal mikinn í innihaldslausri ræðu og tilgangur hans var að segja allt annað en það sem hann meinti um hvers vegna ætti að leggja forsetaembættið niður. Höfum við verið í sérstökum vandræðum með að gera samninga við erlend ríki þó að ákvæði stjórnarskrárinnar sé orðað eins og það er? Hefur það gerst að samningar hafi ekki orðið að veruleika sökum þess að ákvæðið er með þessum hætti? Hvers konar röksemdafærsla er þetta? Höfum við átt í einhverjum erfiðleikum með þetta? Hvað segir í stjórnarskránni sjálfri? Þar segir að ráðherra framkvæmi vald forseta hvað þetta varðar. Hefur þetta valdið einhverjum vandkvæðum? Það er ekki til í dæminu.

Það sem ég var að segja, virðulegi forseti, var þetta: Sú röksemdafærsla sem hér var lögð fram getur aldrei orðið alvörugrunnur að vitiborinni umræðu um embætti forseta Íslands og þau rök sem eru færð fyrir því að leggja embættið niður halda hvorki vatni né vindum. Þau eru fyrst og fremst gagnrýni á orðalag stjórnarskrárinnar. Það er þá bara sérstakt verkefni. Menn eiga að koma beint til þess leiks að endurskoða stjórnarskrána en ekki að nota það tilefni til að leggja embættið niður án nokkurra raka. Auðvitað er veruleikinn sá, og við þurfum ekkert að skauta fram hjá honum, að það eru óskapleg sárindi yfir því að ríkisstjórnin hafi ekki komið hér í gegn í fyrra frumvarpi til laga um fjölmiðla. Menn eiga að tala um þetta eins og það er en ekki leggja lykkju á leið sína eins og hér er gert með því að gagnrýna orðfæri stjórnarskrárinnar og segja að af þeim sökum einum sé ástæða til að leggja embættið niður.