131. löggjafarþing — 73. fundur,  14. feb. 2005.

Fjármálafyrirtæki.

55. mál
[19:07]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki. Auk mín er flutningsmaður að frumvarpinu hv. þm. Jón Bjarnason.

Frumvarp okkar snýr að þremur greinum fyrrnefndra laga, 70. gr. og 75. gr. auk þess sem vísað er í 18. gr. lagabálksins. Í 70. gr. er kveðið á um skiptingu eignarhluta og atkvæða í sparisjóðum. Í 75. gr. er vísað í atkvæðisrétt í sparisjóði sem breytt hefur verið í hlutafélag og sem áður segir er í 18. gr. lagabálksins kveðið á um skilgreiningu á tengslum viðskiptaaðila.

Frumvarpið gengur út á að draga upp skýrari mynd eða fá skýrari línur í lögin en verið hefur, en sem kunnugt er hefur einkenni á íslenskum sparisjóðum verið dreifð eignaraðild. Lengi framan af var framsal stofnfjárhluta ekki heimilt og þegar þeim ákvæðum laganna var breytt á sínum tíma var hert á reglum sem eiga að gilda um valdahlutföll innan sparisjóðanna. Í lögunum segir að enginn einn aðili geti farið með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði.

Þá er spurningin hvernig eigi að skilgreina þennan eina sem má hafa slíkt atkvæðamagn á hendi. Við viljum að það sé skýrt í lögunum að fyrirtæki sem hefur undir sinni regnhlíf dótturfyrirtæki geti ekki skilgreint sig sem marga aðila heldur verði litið á þau sem einn og sama aðilann.

Ég ætla ekki að hafa um þetta langa ræðu við þessa umræðu en legg áherslu á að það komi sem fyrst til efnahags- og viðskiptanefndar þingsins og þar fái það rækilega og málefnalega umfjöllun. Þess eru dæmi núna úr nýlegri sögu og framvindu reyndar sem enn er að eiga sér stað að áhöld eru um túlkun þessara laga og var leitað til Fjármálaeftirlitsins sem hefur ekki treyst sér til að kveða skýrt á um túlkun laganna. Þetta varð til þess að ég og hv. þm. Jón Bjarnason ákváðum að leggja fram þetta frumvarp til laga til að fá mjög skýrar línur í lögin. Við teljum að þessar breytingar breyti engu í grundvallaratriðum heldur skerpi þær einvörðungu á lögunum eins og þau standa nú.

Ég legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til efnahags- og viðskiptanefndar.