131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Athugasemd.

[13:36]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er ekki fjarvera menntamálaráðherra sem ég ætla að ræða, heldur eiga orðastað við hæstv. sjávarútvegsráðherra um þá stöðu sem er uppi varðandi loðnuvertíðina. Þar er mjög mikið í húfi og því miður eru með degi hverjum vaxandi líkur á því að sá kvóti sem út var gefinn á loðnuveiðum á þessari vertíð náist ekki sökum þess að brælur og fleira hafa gert veiðar og vinnslu úrtökusama.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki komi til greina að fara yfir það hvaða ráðstafanir mættu verða til þess að auka líkurnar á því að kvótinn náist og þessi verðmæti skili sér í þjóðarbúið, t.d. með því að gefa veiðar frjálsar að einhverju leyti eða með því að úthluta veiðiheimildum til þeirra verksmiðja sem ekki tengjast neinum skipum og eru lítt eða ekki starfræktar í dag. Menn gætu þannig gert ráðstafanir til þess að afköst í veiðum og vinnslu yrðu nýtt til fulls. Það má nefna verksmiðjurnar í Bolungarvík og verksmiðju á Djúpavogi sem heimamenn þar hafa nýverið ráðist í að kaupa og eru að reyna að koma í gang.

Það er auðvitað þeim mun mikilvægara að nýta þessi afköst til fulls í ljósi þess að svo óheppilega vill til að ein afkastamikil verksmiðja er úr leik í bili vegna bruna eins og kunnugt er. Ég tel að ráðherra gæti gert ýmsar ráðstafanir sem mættu verða til þess að setja aukinn kraft í það að menn reyni að klára kvótann, þótt ekki væri meira en það að gefa út yfirlýsingu um að að tilteknum forsendum uppfylltum og ef málin þróast með þeim hætti sem nú stefnir í yrðu veiðar gefnar frjálsar á einhverjum tilteknum tímapunkti til þess að menn gætu sótt frjálst í stofninn í lok vertíðar. Þannig gætu þeir verið með hámarksafköst í gangi til að reyna að nýta verðmætin. Hér er býsna stórt þjóðhagslegt mál á ferðinni og ekki veitir sjávarútveginum af eins og afkoma hans er að þróast vegna gengis krónunnar og af fleiri ástæðum.