131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Athugasemd.

[13:40]

Kristján L. Möller (Sf):

Herra forseti. Hér er í raun og veru verið að ræða tvö mál, annars vegar fjarveru hæstv. menntamálaráðherra sem er í opinberum erindum erlendis og verður ekki viðstödd þá umræðu sem hér verður um Tækniháskólann. Það er auðvitað mjög óeðlilegt og er rétt að vekja athygli á því hvað ráðherrar eru farnir að stunda það að vera fjarverandi þegar mál þeirra eru rædd, því miður. Nægir þar t.d. að nefna hæstv. forsætisráðherra sem er núna í mikilli fundaferð um landið til að undirbúa landsþing Framsóknarflokksins og er þá ekki í þingstörfum á meðan, eins og t.d. á mánudaginn var þegar óundirbúnar fyrirspurnir voru.

Ég hef samt meiri áhuga á að ræða um loðnu og loðnuveiðar og tek undir þær áhyggjur sem hér hafa verið viðraðar. Þetta er náttúrlega afleiðing af því, virðulegi forseti, að Hafrannsóknastofnun hefur ekki það fé sem hún þarf til að stunda loðnurannsóknir. Við höfum slugsað í hafrannsóknum gagnvart loðnu miðað við þær breyttu aðstæður sem eru í hafinu, hlýnandi sjó og annað slíkt, og það gerir það að verkum að við erum að gefa kvótann út svona seint. Ef veður verða svona eins og þau hafa verið núna og brælur náum við ekki þessum kvóta. Þetta er besta lýsing á því að við þurfum að breyta um takt á þessum loðnurannsóknum, þurfum að geta rannsakað þær fyrr á sumrin og gefið út upphafskvóta í upphafi kvótaárs eins og í öðrum tegundum þannig að útgerðir, vinnslur og aðrir geti skipulagt veiðar sínar og vinnslu eftir árstíðum en ekki eingöngu farið í kapphlaup núna við dagatalið og hvað við getum veitt loðnu lengi. Auðvitað er mjög alvarlegt ef við náum ekki þeim kvóta sem loksins var gefinn út eftir áramót og það hefur þær alvarlegu afleiðingar fyrir þjóðarbúið að útflutningstekjur tapast.

Ég ítreka það, virðulegi forseti, að ég held að hæstv. sjávarútvegsráðherra eigi að taka þetta upp og skoða það að gefa út upphafskvóta í upphafi fiskveiðiárs eins og í öðrum tegundum.