131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Vöxtur og viðgangur þorsks í Breiðafirði.

[13:55]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Blaðamaður spurði mig áðan hvað ætti að ræða hér og ég sagði við hann að það ætti að ræða vöxt og viðgang þorsks. Hann hafði á orði að það væri ekki sexí umræðuefni en þá benti ég honum á að þessi umræða skipti verulegu máli því að hér væri verið að ræða um útflutningsverðmæti upp á 50 milljarða. Við erum að fara að ræða hér mjög merkilega hluti sem margir hafa miklar áhyggjur af. Meðal annars komu fram á fundi Snæfells, félags smábátaeigenda á Snæfellsnesi, þann 26. janúar miklar efasemdir um starfshætti Hafrannsóknastofnunar og nýtingarstefnu stjórnvalda. Gísli Ólafsson, varaformaður Snæfells, varpaði fram þeirri spurningu hvers vegna þorskstofninn stækkaði ekki þrátt fyrir gott árferði og vísindalega ráðgjöf.

Æpandi staðreyndir blasa við um árangursleysi fiskveiðistjórnarinnar. Þorskveiðin er einungis helmingur af því sem hún var fyrir daga kvótakerfisins og af máli hæstv. sjávarútvegsráðherra hér á Alþingi fyrir skömmu mátti helst ráða að hann stæði í þeirri meiningu að þó að veiðin væri eitthvað minni væri þorskstofninn ekki lakari. Það er einfaldlega ekki rétt hjá hæstv. ráðherra. Þorskstofninn er nefnilega umtalsvert lakari og veiðin er enn fremur talsvert minni, helmingi minni en fyrir daga kerfisins. Það blasir við öllum að ráðgjöf Hafró skilar ekki árangri. Veiðin er minni þrátt fyrir gott árferði í sjónum.

Einn liður í fiskveiðiráðgjöf Hafró hefur verið að loka svæðum. Sú aðgerð hefur bitnað harkalega á sjávarbyggðunum á Snæfellsnesi. Reglan er sú að þegar fjórðungur þorsks í afla er minni en 55 sentímetrar er einfaldlega lokað. Hægt er að fallast á að vernda smáfisk ef æti er ekki takmarkandi þáttur. Svo er hins vegar yfirleitt ekki í náttúrunni. Æti er einmitt sá þáttur sem er takmarkandi og hamlar vexti dýrastofna.

Það sem einkum hefur verið gagnrýnt varðandi þessar lokanir er að einungis er notuð lengd en aldur fisksins er ekki skoðaður og ekki heldur hvort hann sé að vaxa eða yfirleitt hvort hann sé orðinn kynþroska. Þetta undarlega verklag hefur verið gagnrýnt úr þessum ræðustóli, m.a. síðasta haust, og hæstv. sjávarútvegsráðherra brást við þeirri gagnrýni með því að lofa frekari rannsóknum.

Eftir að Snæfell fór fram á að aldur fisksins yrði athugaður fór Hafró í frekari rannsóknir til að sannreyna hvort lokun hefði átt rétt á sér. Þær rannsóknir vil ég einkum gagnrýna fyrir tvennt, í fyrsta lagi fyrir það að hvorki var þorskurinn vigtaður né kannað hvort hann væri kynþroska. Það skiptir afar miklu máli.

Í öðru lagi gagnrýni ég Hafrannsóknastofnun fyrir mjög villandi framsetningu á gögnum. Staðreyndin er sú að þegar rýnt var í gögn Hafrannsóknastofnunar kom í ljós að fjórðungur af öllum fimm ára fiski og eldri var hægvaxta. Það er óskiljanlegt að stofnunin skuli grauta öllum aldurshópum saman þegar verið er að túlka gögnin.

Ýmislegt í þessum lokunarfræðum er líkara bókhaldi en líffræði, t.d. að fiskur sem er skráður fjögurra ára í nóvember á afmæli um áramót. Það er farið með hann eins og hann sé fjögurra ára en í rauninni vex hann ekkert á þessum tíma, frá nóvember og fram til áramóta.

Í kjölfar þessara rannsókna réðu sjómenn til sín sjálfstæðan vísindamann. Niðurstöður hans leiddu í ljós að fiskurinn var að meiri hluta kynþroska. Það dró mjög úr vexti hans þegar hann hafði náð einu kílói að þyngd. Samkvæmt rannsóknum fiskifræðingsins Jóns Kristjánssonar var fjögurra ára fiskur tæpt kíló, fimm ára fiskur 1,1 kíló, sex ára fiskur 1,3 kíló, átta ára fiskur 1,8 kíló og níu ára fiskur 1,7 kíló. Þetta var sem sagt orðinn gamall fiskur sem stækkaði ekkert.

Þetta þýðir að ástandið hefur verið svona um langt skeið. Það ríkir vaxtarstöðnun sem stafar af fæðuskorti. Uppi eru ýmsar kenningar um þetta, þetta geti stafað af erfðafræðilegum þáttum og ýmsu öðru, en þegar þessi sami fiskur er settur í eldisker fyrir utan Grundarfjörð sprettur hann og stækkar. Í ljósi þeirra vísindagagna sem liggja fyrir vil ég spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra eftirfarandi spurninga:

Mun sjávarútvegsráðherra láta framkvæma mat óháðra aðila á friðunarstefnu Hafrannsóknastofnunar?

Mun sjávarútvegsráðherra beita sér fyrir breytingum á framkvæmd á lokun svæða?

Hver eru markmið sjávarútvegsráðherra í þessum efnum (Forseti hringir.) og hvernig hyggst hann mæla árangurinn?