131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Vöxtur og viðgangur þorsks í Breiðafirði.

[14:13]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við erum hér að tala um grundvallaratriði í fiskveiðistjórn okkar og ég verð að segja alveg hreinskilnislega að hefði ég verið prófdómari hér í dag og hæstv. sjávarútvegsráðherra komið til prófs hjá mér hefði ég gefið honum falleinkunn í fiskifræði. Grafið sem hann sýndi er í raun og veru ómarktækt því að það sýnir vaxtarkúrfur yfir a.m.k. tvo mismunandi fiskstofna, annars vegar að öllum líkindum staðbundinn þorsk í Breiðafirði, smáþorsk sem er á grunnslóð, og síðan yfir eldri þorsk sem er að koma utan af hafi og veiðist á grunnslóð við Snæfellsnes. Þetta er einfaldlega ekki boðlegt.

Í sjávarútvegsnefnd höfum við fundað með fiskifræðingum, meðal annarra Jóni Kristjánssyni. Við höfum líka fundað með sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar. Þeir sýndu okkur m.a. þessa teikningu og þá benti ég þeim á þá augljósu staðreynd að hérna værum við að skoða tvo ólíka hluti og það væri ekki hægt að leggja þetta fram svona. Þess vegna er ég mjög hissa á því að hæstv. sjávarútvegsráðherra skuli koma hingað með þetta línurit og nota það til að draga úr gildi þeirrar rannsóknar sem Jón Kristjánsson hefur unnið. Ég tel að þær niðurstöður sem Jón Kristjánsson komst að í rannsóknum sínum, sem hann hefur kynnt fyrir okkur í sjávarútvegsnefnd, hafi einmitt verið mjög merkilegar. Það er full ástæða til að skoða það betur sem hann var að reyna að segja okkur.

Menn eiga ekki að koma hér upp og gera lítið úr því þó að aðilar utan Hafrannsóknastofnunar hafi kannski aðrar skoðanir, aðra nálgun á vandamálin og jafnvel aðrar kenningar. Það er nefnilega grundvallaratriði í öllum heilbrigðum vísindum að menn séu tilbúnir til að skoða hlutina upp á nýtt, alltaf, að menn fari ekki að trúa því að þeir hafi fundið hinn eina algilda sannleika. Það er stórhættulegt í öllum vísindum og þetta ætti sjávarútvegsráðherra að vita, háskólamenntaður maðurinn.