131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:46]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég gerði mér ekki grein fyrir því þegar hv. þm. Einar K. Guðfinnsson talaði áðan hvort hann væri að tala í alvöru eða gamni. Ég gerði mér ekki alveg grein fyrir því hvort hann væri að reyna að sannfæra almenna þingmenn hér um það að meiri hluti þingmanna, þeir sem styðja ríkisstjórnina, færu almennt með stjórnina í þeim málum sem hér kynnu að koma upp og að við ráðherrann þyrfti ekkert að tala. (Gripið fram í: Betur ef satt væri.) Betur ef satt væri, eins og hér er kallað fram í.

Þetta er náttúrlega alveg fráleit röksemdafærsla og á sér enga stoð í þeim veruleika sem við búum við.

Ég vil líka benda á það, virðulegi forseti, að menntamálaráðherra er þingmaður. Ráðherra gegnir líka þingstörfum. (Gripið fram í.) Ráðherrann er þingmaður og gegnir embætti menntamálaráðherra og hefur til þess stuðning meiri hluta þingsins. Það vekur mikla furðu að sama dag og þetta stóra mál sem á sér ekki fordæmi — það hefur ekki gerst áður að ætlunin sé að reka háskóla sem einkahlutafélag, þetta á sér ekki fordæmi — að sama dag og það kemur á dagskrá til 2. umr. þá hverfi hæstv. ráðherra af þingi. Þetta er algjörlega fráleitt.

Af því að ég staldraði örlítið við ræðu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar vil ég spyrja: Síðan hvenær eru mál útrædd eftir 1. umr.? Hv. þingmaður talaði hér um það að þar hefðu menn átt að spyrja spurninganna, þar væru málin útrædd. Spurðu menn ekki þá? Þá spyrja menn að sjálfsögðu: Hvað er mál þá að gera í nefndum? (Gripið fram í.)

Í nefndum eru kallaðir fyrir sérfræðingar, þar er aflað upplýsinga o.s.frv. og þær upplýsingar á síðan að nota í þessari umræðu til að halda henni áfram og þroska hana. En á sama degi og jafnmikið stórmál er hér á dagskrá hverfur hæstv. ráðherra út af þingi. Ég trúi ekki öðru en að það hefði mátt skipuleggja þingið þannig að þessi umræða hefði verið tekin meðan hæstv. ráðherra væri inni.

Ég ber fullt traust til hæstv. umhverfisráðherra og er ekkert að gera lítið úr henni með þessari umræðu. Mér finnst samt alveg fráleitt að svona stórmál skuli tekið á dagskrá við þessar aðstæður. Ég skil vel að hv. formenn þingflokka stjórnarflokkanna þurfi að tala sig bláa í framan til að verja þetta. Þetta er að minni hyggju algjörlega fráleitt, virðulegi forseti. Mér finnst ofur eðlileg krafa að málinu sé frestað þar til hæstv. ráðherra kemur nema sú breyting hafi hér orðið á vinnubrögðum að þingmenn sem styðja ríkisstjórnina séu farnir að hafa áhrif í málum sem hæstv. ráðherrar flytja. Þá yrði að segjast eins og hér var kallað fram í áðan: Betur ef satt væri.