131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:55]

Hjálmar Árnason (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Í rauninni þarf ekki að bæta miklu við þá ágætu ræðu sem síðasti hv. þingmaður (Gripið fram í: Jú, jú.) hélt hér því að þetta er að verða ein allsherjarlangavitleysa. Hér er búið að eyða rúmlega hálftíma í nöldur sem hleypur ýmist úr söknuði vegna fjarveru hæstv. ráðherra, það er farið í þorskinn í Breiðafirði, hverjir tóku þátt í þeirri umræðu og hverjir tóku ekki þátt í þeirri umræðu, eitthvað um efnisinnihald tækniháskólafrumvarpsins og þar fram eftir götunum.

Ég er alveg sammála hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, hér er verið að slá ryki í augu fólks, flýja hina pólitísku umræðu. Það vekur athygli, herra forseti, að það er eins og að hv. stjórnarandstaða treysti sér ekki í umræðu án nærveru hæstv. ráðherra. Það er alveg með ólíkindum þrátt fyrir það, eins og búið er að benda á hér ítrekað, að í 2. umr. sérstaklega er þetta mál í höndum þingsins. 3. umr. er eftir. Eftir hverju er verið að bíða? Hvað vakir eiginlega fyrir mönnum að grenja hér yfir því að ekki skuli vera hér ráðherra og vilja ekki fara í hina pólitísku umræðu?

Virðulegur forseti. Er ekki ráð að þessari lönguvitleysu ljúki þannig að hægt sé að fara í hina pólitísku umræðu um málið?