131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:04]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Kannski er ekki miklu við það að bæta sem hefur komið fram í umræðunni. Við erum að upplifa það að mínu viti að hér er verið að afgreiða Alþingi líkt og um einhvers konar afgreiðslustofnun væri að ræða. Við lásum í Morgunblaðinu ekki fyrir margt löngu fyrirmæli eða tilskipanir frá menntamálaráðherra þess efnis að nú sé fyrirhugað að í gegnum þingið fari frumvarp til breytinga á Ríkisútvarpinu. Hér tala fulltrúar meiri hlutans og þingflokksformenn stjórnarflokkanna á þann veg að engu máli skipti hverjir séu viðstaddir umræðuna og hverjir ekki. Orð hæstv. menntamálaráðherra í umræðu af þessum toga skipta miklu máli, sérstaklega þegar verið er að ræða mál sem á sér ekki fordæmi og mun án efa verða skoðað mjög vandlega þegar fram líða stundir. Hér segja hv. þingmenn einfaldlega: Það skiptir ekki máli. Og hæstv. forseti lýsir því yfir að aðrir geti hlaupið í skarðið rétt á meðan umræðan fer hér fram.

Virðulegi forseti. Ég lít svo á að það sé sorglegt fyrir hið háa Alþingi hvernig forseti afgreiðir þessi mál.