131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:05]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er oft lærdómsríkt að nálgast viðfangsefni af þessum toga með dæmum. Ég nefndi í fyrri ræðu minni dæmi af samskiptum hæstv. forseta Halldórs Blöndals og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Mig langar að kasta upp annarri hugsun sem lýtur að fyrri störfum hæstv. forseta, Halldórs Blöndals. Dytti nokkrum manni það í hug í þessum sal að fyrrverandi landbúnaðarráðherra, Halldór Blöndal, hafi ekki verið hér á vettvangi á Alþingi þegar 2. umr. búvörulaga stóð yfir? Kemur nokkrum til hugar að Halldór Blöndal, hæstv. forseti, hafi ekki verið viðstaddur þá umræðu sem landbúnaðarráðherra? Auðvitað ekki. Dettur nokkrum manni í hug að hæstv. forseti Halldór Blöndal, þáverandi samgönguráðherra, hafi verið fjarri þegar síðari umræða endurskoðunar vegáætlunar var hér á dagskrá á sínum tíma? Auðvitað ekki.

Ég held að þetta segi allt. Á þeim árum datt engum í hug að fara fram með stórmál af þeim toga sem hér um ræðir án þess að ráðherrann sem fer með málið, ber pólitíska ábyrgð á því, væri hér viðstaddur og tæki fullan þátt í umræðunni. Þannig var það a.m.k. á árum áður, hæstv. forseti. (LB: Sú var tíðin.) Sú var tíðin.