131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:32]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Gunnar Birgisson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki svarað því hvenær það verður, það er bara spurning um hvernig þróunin í þessu verður. Verður þróunin tæknifræðinám sem er styttra en í dag, eða verður það eins og nú virðist vera tilhneigingin að menn að fari í lengra nám? Eftir BS-nám fer fólk nánast orðið undantekningarlaust í meistaranám og í auknum mæli síðan áfram í doktorsnám. Ég tel að starfstengt nám sem væri styttra en núverandi tæknifræðinám geti komið til greina. Eins og ég sagði fórum við, hluti menntamálanefndar, og skoðuðum þessi mál í Finnlandi fyrir tveimur og hálfu ári. Þar hafa þeir notað þetta kerfi og gengið vel, en auðvitað þarf að skoða það að skólarnir hafi bæði burði og annað til að gera slíka hluti.