131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:35]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Gunnar Birgisson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rétt til að svara þessu þá var það ekki meiri hluti menntamálanefndar sem ákvað það að tekið yrði upp hlutafélagaform í staðinn fyrir sameignarfélagaform í rekstri þessa nýja háskóla, aftur á móti eru menn sammála forminu. Rektor Háskólans í Reykjavík og væntanlega hins nýja skóla, Guðfinna Bjarnadóttir, skýrði þetta ágætlega. Ég las fyrir þingheim áðan upp úr svörum hennar til nefndarinnar. Það sem m.a. kemur fram er að fleiri hluthafar hafa bæst við, fleiri aðilar að rekstri hins nýja skóla. Hlutafélagaformið gerir það að verkum að bæði er möguleiki að bæta fleirum við og ábyrgð þeirra er önnur og meiri. Ef ríkið vill ekki, einhvern tímann kannski, gera samning við Hástoð um áframhaldandi rekstur, þá er hægt að slíta félaginu á eðlilegan hátt í stað þess að mun erfiðara er að slíta sameignarfélagi og það sem er kannski aðalatriðið er að hlutafélagaformið tengir eigendurna langtum betur að stjórnun skólans.