131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:38]

Frsm. 2. minni hluta menntmn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst yfirgangur hv. formanns menntamálanefndar yfirgengilegur þegar hann í ræðu sinni áðan fylgir úr hlaði nefndaráliti meiri hluta menntamálanefndar og leyfir sér að vitna til nefndarálita sem ekki er búið að tala fyrir og vitnar þar að auki vitlaust í þau. (Gripið fram í.) Það er rangt hjá hv. þingmanni að ég hafi lagt það til í nefndaráliti mínu að Tækniháskóli Íslands yrði sameinaður Háskóla Íslands. Það er rangt og hv. þingmaður hefði átt að bíða eftir því að ég fylgdi mínu máli úr hlaði. Ég tel að hæstv. forseti hefði átt að stöðva hv. þingmann í þessum dónaskap, að vitna hér í gögn sem við erum ekki búin að tala fyrir. Við skulum hafa hlutina í réttri röð í þessari umræðu, virðulegi forseti, og ræða um þau nefndarálit sem fyrir liggja í þeirri röð sem mælt er fyrir þeim.