131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:40]

Frsm. 2. minni hluta menntmn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er lágmarkskrafa að hv. þingmenn vitni þá rétt í þau skjöl sem þeir ætla sér að vitna í en auðvitað ræðum við þau nefndarálit sem eftir er að mæla fyrir hér á eftir. Ég vil beina máli mínu til hv. þingmanns út af nefndaráliti meiri hlutans í þessu máli og segja að það nefndarálit er vægast sagt furðulegt því þar kemur ekkert fram um vilja meiri hlutans í málinu. Nefndarálitið gerir ekkert annað en rekja spurningar sem hv. stjórnarandstöðuþingmenn lögðu fyrir gesti nefndarinnar og svör við þeim spurningum. Það er aðeins í niðurlagslínum álitsins sem sjá má í einhverjum furðulegum yfirlýsingastíl einhvers konar yfirlýsingar frá meiri hluta nefndarinnar. Það er ekkert sagt um þau sjónarmið sem koma fram í svörunum sem rakin eru í nefndarálitinu. Ég auglýsi því hér eftir sjónarmiðum meiri hlutans í málinu í smáatriðum hvaða afstöðu hann hefur til þeirra svara sem gefin voru við spurningum stjórnarandstæðinga.