131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[16:13]

Frsm. 1. minni hluta menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hugsa að hv. þingmaður hafi skroppið fram í símann á meðan ég sagði það, því ég tók það einmitt mjög skýrt fram að stuðningur okkar við sameininguna er skilyrtur við afdrif þeirrar breytingartillögu sem við flytjum við frumvarpið. Að sjálfsögðu. Við skilyrðum stuðning okkar við að breytingartillagan sem við leggjum fram við lögin, sem kemur inn á að einkareknir háskólar skuli vera sjálfseignarstofnanir, nái fram að ganga. Þess vegna skoraði ég mjög skýrt á hv. Alþingi að samþykkja breytingartillögu okkar, enda væri hún mjög eðlileg og málinu til mikils framdráttar. Með því að samþykkja hana væri miklum efasemdum eytt og málið allt færi í annan og betri búning. Svarið við því er því ákaflega skýrt og kom fram í ræðu minni.

Af því að hv. þingmaðurinn nefndi fjarveru hæstv. menntamálaráðherra þá hlýtur að vera einkennilegt og einnar messu virði að fara fram á það að yfirmaður menntamála í landinu sé við menntapólitíska umræðu sem kemur að mörgu leyti við grundvallaratriði í skólakerfi okkar, grundvallaratriði í uppbyggingunni á menntakerfi okkar og mun hafa mjög víðtækar, fordæmisgefandi afleiðingar, gangi hún eftir. Það er algjörlega óásættanlegt að hæstv. ráðherra sé ekki viðstaddur tímamótaumræðu sem mun hafa mjög víðtækar menntapólitískar afleiðingar, gangi hún eftir.