131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[16:20]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Gunnar Birgisson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum orðið vitni að því hér að Samfylkingin veit ekki í hvorn fótinn hún á að stíga og tiplar því. En mig langar að leggja eina spurningu fyrir hv. þingmann og framsögumann 1. minni hluta. Að mati 1. minni hluta eru skólar á háskólastigi líklega of margir en hér stendur, með leyfi forseta, að skoða beri „sameiningu þeirra eða nánari samvinnu“. Það er allt gott með það en síðan fer maður aftar í nefndarálitið á bls. 2, með leyfi forseta:

„Þá er mikilvægt að skoða kosti þess að hefja kennslu í tæknifræðum í fleiri skólum, t.d. í Iðnskólanum í Reykjavík …“

Ég spyr: Fer þetta saman í svona nefndaráliti? Menn byrja á að segja að þeir vilji fækka skólunum og svo, þegar þeir eru búnir að skrifa sig aðeins lengra inn í nefndarálitið, vilja menn fjölga þeim aftur? Það er rétt að fá svar hjá hv. þingmanni við þessu, að hann skýri þennan mismun.

Rauði þráðurinn í málatilbúnaði Samfylkingarinnar er síðan að vera á móti þessu, að skólinn verði einkahlutafélag í staðinn fyrir sjálfseignarstofnun. Samþykktir fyrir Hástoð ehf. fylgja með nefndaráliti meiri hlutans. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa upp 11. grein sem er um ráðstöfun hagnaðar eða taps.

Þar stendur, með leyfi forseta:

„Hagnaði félagsins skal aðeins ráðstafað til að efla starfsemina í samræmi við hlutverk félagsins. Félaginu er óheimilt að verja hagnaði, réttindum eða eignum til annarra verkefna en þeirra sem samræmast hlutverki og starfsemi félagsins. Ekki verður greiddur arður út úr félaginu.“

Eru þetta ekki nægar skýringar? Ég ætla líka að fá svör við því hvers vegna tortryggnin er svo mikil út í þetta.