131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[16:24]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Gunnar Birgisson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rektor hins nýja skóla, Guðfinna Bjarnadóttir, hefur lagt fram rök fyrir því að það sé hagkvæmara að nota þetta form, hlutafélagið.

Ég ætla að leggja aðra spurningu fyrir hv. þingmann og vitna enn og aftur í nefndarálit 1. minni hluta menntamálanefndar, með leyfi forseta:

„Það er mikilvægt að framboð á tækninámi verði ekki fátæklegra eftir sameininguna og renni að stórum hluta inn í verkfræðinámið heldur standi það áfram sem öflugt, sérstakt nám við hinn nýja skóla.“ — Síðan kemur mjög merkileg setning. — „Færsla líftæknigreinanna til Háskóla Íslands er fordæmi fyrir tækninámi við skólann og ber að mati 1. minni hluta að kanna kosti þess til hlítar að kenna tæknigreinarnar í Háskóla Íslands.“

Þarna kemur einmitt meginmálið. Er hv. þingmaður eða 1. minni hluti að segja að hann leggi til að Tækniháskóli Íslands gangi eða renni inn í Háskóla Íslands?

Hér segja menn eitt í ræðustól en síðan stendur annað í nefndarálitinu. Það væri gott að fá úr því skorið hvaða skoðun Samfylkingin hefur í þessu máli. Er hún hlynnt þessari sameiningu eða vill hún láta tæknifræðina renna saman við Háskóla Íslands og hún verði kennd þar? Er það málið?

Það þýðir ekki að vera með nefndarálit sem segir eitt á bls. 1 en svo fletti maður á bls. 2 og þá séu menn þar komnir á allt aðra skoðun. Menn verða að svara þessu. Þetta er ekki eðlileg framkoma, hvorki við okkur þingmenn og alls ekki við nemendurna í þessum nýja háskóla né þá sem standa að honum.