131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[16:29]

Frsm. 2. minni hluta menntmn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Eins og kom fram í langri umræðu hér áður en málið sjálft var tekið á dagskrá þá er stjórnarandstöðunni ekkert að vanbúnaði í að takast á við stjórnarmeirihlutann um málefnin sem snerta þetta mál. Hins vegar höfum við harmað að hæstv. menntamálaráðherra skuli hafa kosið að vera frekar á erlendri grund að sinna skyldustörfum þar, sem hún virðist hafa talið mikilvæg og mikilvægari en að fylgja þessu máli hér úr hlaði. Af því að ég tók ekki þátt í umræðunni um fundarstjórn forseta áðan vil ég ítreka það hér eða staðfesta að spurningum sem ég lagði fyrir hæstv. menntamálaráðherra við 1. umr. er enn ósvarað. Ég mun reyna að leggja þær spurningar fram aftur og sjá hvort hæstv. starfandi menntamálaráðherra getur svarað einhverju þar um. Ef ekki þá verður að sjálfsögðu að tryggja að hæstv. menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir verði viðstödd 3. umr. málsins.

Ég stend að nefndaráliti á þingskjali 796 frá 2. minni hluta menntamálanefndar og mun nú fylgja því úr hlaði með því að fara stuttlega yfir það sem þar kemur fram. Auk þess mun ég segja frá frumvarpi til laga sem ég hef látið dreifa í þingsölum og tengist þessu máli afar mikið, en það frumvarp gerir ráð fyrir breytingum á lögum um háskóla sem fela það í sér að sjálfseignarstofnunum og einkareknum háskólum verði óheimilt að innheimta skólagjöld af nemendum sem stunda nám í greinum sem ekki er unnt að leggja stund á í ríkisháskóla án skólagjalda. Ég nálgast því þetta mál, virðulegi forseti, út frá þeirri jafnræðisreglu og því jafnræði og jafnrétti til náms sem mér finnst fólgið í því að háskólanemar eigi þess ævinlega kost að stunda nám við þau háskólafög og þær háskólagreinar sem þeir kjósa án skólagjalda.

Í því frumvarpi sem við hér ræðum er hins vegar gert ráð fyrir því að nám í tæknifræði á háskólastigi verði lokað inni í einkareknum háskóla og að krafist verði fyrir það hárra skólagjalda. Það þýðir að stúdentar sem kjósa að taka það nám í ríkisháskóla án skólagjalda eiga þess ekki lengur kost. Þetta er hvati þess frumvarps sem ég hef látið dreifa í þingsölum í dag, en flutningsmaður ásamt mér er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon.

Hæstv. forseti. Það er alkunna að um árabil hefur verið unnið að því í ráðuneyti menntamála bæði leynt og ljóst að einkavæða tækninám á háskólastigi. Hæstv. menntamálaráðherrar hafa hins vegar ekki haft árangur sem erfiði í því máli fyrr en nú að Samtök atvinnulífsins ásamt Samtökum iðnaðarins og Verslunarráði Íslands hafa stofnað einkahlutafélagið Hástoð ehf. Óðagotið í þessu máli, hæstv. forseti, er það mikið að þegar viljayfirlýsing um stofnun einkahlutafélags er taki yfir starfsemi Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands var undirrituð af menntamálaráðherra og aðstandendum þessa einkahlutafélags þann 19. febrúar 2004, þá virðist ekki hafa verið komið nafn á þetta einkahlutafélag, því þar er bara ritað undir fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og Verslunarráðs Íslands. Einkahlutafélagið var því í raun ekki búið að taka á sig mynd þegar hlaupið var til og haldinn blaðamannafundur um undirritun viljayfirlýsingarinnar. Bara þetta litla atriði bendir auðvitað á óðagotið í þessu máli og skamman og lítinn undirbúning þessarar vinnu allrar.

Menntamálanefnd hefur líka þurft að fjalla um þetta mál í hálfgerðu óðagoti. Við höfum verið undir tímapressu. Við héldum einungis tvo fundi um málið. Það er eðlilegt að tímapressa sé á málinu því aðstandendur þessa skóla og nemendur hans þurfa að fá úrlausn og fá að vita hver verði næstu skref og í hvernig umhverfi þeir verða að starfa á næstu missirum, því gert er ráð fyrir því samkvæmt frumvarpinu að þessi nýi háskóli taki til starfa eftir fjóra mánuði. 2. minni hluti menntamálanefndar átelur það hversu skammur tími var gefinn til umfjöllunar um málið og ég lýsi því yfir að það hljóti að teljast ófullnægjandi þegar jafnviðamiklar breytingar eru gerðar og hér eru í uppsiglingu.

Ég leyfi mér líka að gagnrýna það, hæstv. forseti, að þessa nýju skólastofnun eigi að reka sem einkahlutafélag og ég felli ekki mig við þær skýringar sem hafa verið gefnar í því máli, hvorki skýringar eigendanna né skýringar hv. þm. Gunnars I. Birgissonar formanns menntamálanefndar sem hafa komið fram í umræðunni hér á undan.

Hæstv. forseti. Hingað til hefur Háskólinn í Reykjavík verið rekinn sem sjálfseignarstofnun alveg eins og Viðskiptaháskólinn á Bifröst, Listaháskóli Íslands sömuleiðis og fleiri skólar. Rökin sem fram eru færð fyrir því að sjálfseignarstofnanaforminu var hafnað, því það var gert meðvitað, því var beinlínis hafnað af eigendum og aðstandendum þessarar nýju stofnunar, voru þau að hlutafélagaformið væri sveigjanlegra, ábyrgðin væri skýrari og að allir eigendur hafi aðkomu að stjórn og að ekki sé hætta á því að skólinn endi uppi munaðarlaus eins og gæti gerst ef um sjálfseignarstofnun væri að ræða.

Hæstv. forseti. Hér hef ég týnt saman helstu rökin sem hafa komið fram bæði í svörum aðstandenda hins sameinaða háskóla og sömuleiðis í máli hæstv. menntamálaráðherra við 1. umr. og í máli hv. þm. Gunnars I. Birgissonar. Það er spurningin um sveigjanleika, skýrari ábyrgð, að eigendur eigi aðkomu að stjórn og að ekki sé hætta á því að skólinn endi uppi munaðarlaus eins og gæti gerst ef um sjálfseignarstofnun væri að ræða. Nánar segir um þetta í svörum fulltrúa hinnar nýju stofnunar sem send voru menntamálanefnd og undirrituð af Guðfinnu S. Bjarnadóttur eins og komið hefur fram í máli hv. þingmanna á undan mér, með leyfi virðulegs forseta:

„Lög um sjálfseignarstofnanir gera aftur á móti ráð fyrir að enginn eigi sjálfseignarstofnanir og þær geta því orðið munaðarlausar og stjórnast einvörðungu af starfsmönnum. Hugarfarið á bak við sjálfseignarstofnun er nánast það að þegar einhver hefur stofnað hana og lagt fram peninga í stofnfé þá sé afskiptum viðkomandi ekki óskað frekar.“

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að mér finnst margt athugavert við þessa yfirlýsingu þeirra aðstandenda stofnunarinnar sem láta þetta frá sér fara því ég get ekki séð í einlægni sagt, virðulegi forseti, að mikil hætta sé á ferðum ef starfsfólk stofnunar verður virkt í stjórn viðkomandi stofnunar, háskólastofnunar. Ég mundi telja það hinn mesta kost alveg eins og ég tel það hinn megnasta löst á ráði manna hér að hvorki starfsfólk né nemendur skuli eiga að hafa aðkomu að háskólaráði stofnunarinnar heldur eingöngu stjórn einkahlutafélagsins.

Virðulegi forseti. Þá telja fulltrúar eigendanna mikilvægt að í hlutafélagi eigi hver og einn sinn hlut — ég undirstrika orðið eigi — og geti tekið hann út úr félaginu, slíkt sé ekki hægt þegar um sjálfseignarstofnun er að ræða.

Virðulegi forseti. Ég hafna öllum þessum rökum. Ég bendi á að ekki hafa komið upp nein teljandi vandræði við rekstur þeirra sjálfseignarstofnana sem við höfum innan skólakerfisins í dag, þar með talið Háskólans í Reykjavík.

Ég tek einnig undir gagnrýni þá sem kemur fram í umsögn BHM um málið, en í þeirri umsögn sem nefndin fékk senda frá BHM segir, með leyfi forseta:

„Almennt vill BHM taka fram að þegar breytt er um rekstrarform fyrir starfsemi í almannaþágu á borð við kennslu og rannsóknir í a) ríkisháskóla svo sem Tækniháskóla Íslands, og b) sjálfseignarstofnun, svo sem Háskólanum í Reykjavík, sem fjármögnuð er með (i) beinum ríkisframlögum til kennslu og rannsókna og (ii) óbeinum ríkisframlögum í formi niðurgreiddra lána úr ríkisstofnuninni Lánasjóði íslenskra námsmanna sem notuð eru til greiðslu skólagjalda án lögbundins hámarks, komi ekki til greina hvorki frá sjónarhóli skattgreiðenda, lýðræðislegs umboðs og eftirlits, notenda né starfsmanna – að starfsemin sé rekin í (einka)hlutafélagsformi.“

Undir þessa hugsun sem BHM stendur fyrir og miðlar okkur í umsögn sinni skal tekið hér, virðulegi forseti. Einnig skal tekið undir kröfur BHM um að réttindi starfsmanna verði tryggð í hvívetna og þótt aðstandendur hins nýja skóla hafi reynt að sannfæra nefndina um að ekki standi annað til þá er rétt að benda hv. þingmönnum á að í IV., V., VI. og VIII. kafla umsagnar BHM, sem fjalla um réttindamálin og annað þeim tengt koma fram ýmis atriði sem vekja upp ákveðna tortryggni í þessum efnum og grun um að farið geti á þann veg að starfsmenn þurfi verulega að beita sér til að berjast fyrir réttindum sínum þegar öllu verður á botninn hvolft.

Hæstv. forseti. Að mínu mati, mati 2. minni hluta menntamálanefndar, er ófært að hin nýja skólastofnun skuli ætla að útiloka nemendur og kennara frá setu í háskólaráði. Ég tel ekki forsvaranlegt að eingöngu fyrirhuguð stjórn í einkahlutafélaginu geti talist uppfylla öll skilyrði sem stjórnir í háskólum eiga að uppfylla að mati menntamálaráðuneytisins. Auðvitað hefði ég viljað fá skoðanaskipti við hæstv. menntamálaráðherra um nákvæmlega þessi atriði. Ég treysti því að stjórnarliðar í menntamálanefnd komi áframhaldandi hér fram á völlinn og segi okkur hvernig þeir rökstyðji stuðning sinn við málið þegar því er svo fyrir komið að hvorki nemendur né starfsfólk fái aðkomu að stjórn háskólans.

Virðulegur forseti. Þegar litið er til þess hversu stutt er síðan Tækniháskóli Íslands var stofnaður, einungis rúm tvö ár, og hversu illa stjórnvöld hafa sinnt þörfum verkfræðideildar Háskóla Íslands hingað til, eins og t.d. kemur fram í ágætri grein Valdimars K. Jónssonar, fyrrverandi prófessors við verkfræðideild Háskóla Íslands, sem birtist í Morgunblaðinu 25. nóvember 2004 og er aðgengileg á háskólavefnum, er ekki sjálfgefið að einkarekin stofnun sem rekin verður fyrir opinbert fé verði svo miklu öflugri við það eitt að fá heimild til að taka skólagjöld jafnvel þó að stofnframlag eigenda komi til í ofanálag. En eins og kunnugt er þá er gert ráð fyrir stofnframlagi upp á 300 milljónir frá eigendum einkahlutafélagsins eins og kemur fram í gögnum þeim sem lögð hafa verið fyrir menntamálanefnd. Það er að mínu mati í hæsta máta óeðlilegt, eins og ég sagði í upphafi míns máls, að með þessum gerningi skuli eiga að loka alla tæknimenntun á háskólastigi inni í stofnun sem innheimtir skólagjöld. Ég vil fá rökstuðning hv. stjórnarliða. Ég kalla sérstaklega eftir rökstuðningi framsóknarmanna á því hvernig stendur á því að Framsóknarflokkurinn getur stutt tillögu af þessu tagi heilum hug þegar sá flokkur hefur viljað kenna sig við félagshyggju og jafnrétti til náms, bæði í ræðu og riti. Hvernig getur Framsóknarflokkurinn skrifað undir það að nú skuli nám á háskólastigi í tæknifræði einokað fyrir þá sem treysta sér til að bæta á sig upphæðum í námslánum sem nemur skólagjöldum í viðkomandi skóla?

Mín sjónarmið ganga hönd í hönd með sjónarmiðum Þorsteins Gunnarssonar, rektors Háskólans á Akureyri, sem í umsögn sinni til menntamálanefndar heldur því fram að með samþykkt þessa frumvarps þurfi stjórnvöld að endurskoða stefnu um skólagjöld, þar sem sú mismunun sem hér hefur verið innleidd ógni stöðu opinberra íslenskra háskóla gagnvart erlendum háskólum. Sama hugsun er orðuð í áðurnefndri grein Valdimars K. Jónssonar þar sem hann telur að með þessari sameiningu sé verið að stuðla að innlendri samkeppni þegar leitast ætti við að styrkja stöðu Íslands í alþjóðlegri samkeppni. Það verður að segjast eins og er, virðulegi forseti, að verkfræðinám er alþjóðlegt nám og það í auknum mæli. Þess vegna er eðlilegt að þessir menn sem þekkja vel til háskólanáms, og háskólanáms í verkfræði meira að segja, telji að þessi sameining komi til með að veikja stöðu Íslands í alþjóðlegri samkeppni í þessu alþjóðlega umhverfi, og það sem meira er, líklegt er að þessi sameining geti komið niður á því rannsóknatengda framhaldsnámi í verkfræði sem hefur nú þegar verið byggt upp við Háskóla Íslands. Valdimar K. Jónsson segir reyndar í grein sinni að honum finnist óeðlilegt og skrýtið að ríkið skuli með hýrri há efna til svona samkeppni gagnvart sjálfu sér. Ég hefði talið heilbrigt og eðlilegt að við fengjum skoðanaskipti stjórnarliða og stjórnarandstæðinga í þessum sal um nákvæmlega þessi sjónarmið. Erum við að skaða mögulega samkeppnishæfni hinna innlendu verkfræðinga og innlendu tæknifræðinga þar sem þeir skólar sem nú hafa rekið þetta nám eru í samkeppni við alþjóðlega háskóla fyrst og fremst?

Með allt þetta í huga, hæstv. forseti, minni ég aftur á frumvarpið sem ég hef lagt fram á hinu háa Alþingi en sem hefur auðvitað svo hátt málanúmer að ekki er líklegt að það komi fljótlega á dagskrá. Ég tel að hugsunin í því frumvarpi verði að skoðast í samhengi við þetta því það frumvarp lýtur nákvæmlega að þessum skólagjaldamálum, jafnrétti til náms og þeim þáttum sem ég hef vitnað til og gert grein fyrir í máli mínu.

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að ég er ekki sannfærð um að reynt hafi verið til þrautar með sameiningu Tækniháskóla Íslands og verkfræðideildar Háskóla Íslands. Þó að á sínum tíma, á öldinni sem leið, hafi tilraunir farið út um þúfur til að sameina Tækniskólann, sem þá var Tækniskóli Íslands, verkfræðideild Háskólans, þá er ekki þar með sagt að það hefði mistekist ef reynt hefði verið til þrautar með það núna. Þess vegna virðist það skynsamlegt, í svo smáu samfélagi sem Ísland er, að efla frekar einn verkfræðiskóla, gera hann faglega sterkan og hæfan til að taka þátt í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum frekar en að dreifa kröftunum á þann hátt sem gert er með því máli sem við ræðum.

Ég tek líka undir efasemdir sem koma fram í umsögn deildarforseta verkfræðideildar Háskóla Íslands til nefndarinnar varðandi það hversu fáir nemendur hafi í raun fullnægjandi undirbúning í stærðfræði og raunvísindum til að standa undir verkfræðinámi í tveimur skólum á Íslandi.

Virðulegur forseti. Því verður alls ekki á móti mælt að mannafli og fjármunir á Íslandi eru takmarkaðir og það verður heldur ekki litið fram hjá þeirri staðreynd að hæfir verkfræðikennarar eru hreint ekki á hverju strái. Þess vegna er eðlilegt að spurt sé á hvern hátt hin nýja háskólastofnun telji að hún geti farið strax af stað með nám til meistaraprófs, eins og kemur fram í gögnum stofnunarinnar að eigi að vera, ekki síst þegar það er skoðað að Háskóli Íslands hefur átt í miklum erfiðleikum með að koma upp öflugu framhaldsnámi hjá sér. Í því sambandi vil ég vitna til orða fyrrverandi prófessors í verkfræðideild Háskóla Íslands, Valdimars K. Jónssonar, sem gerir þetta einmitt að umtalsefni í grein sinni í Morgunblaðinu 25. nóvember sl.

Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Mikil fjölgun hefur verið í innritunum hjá verkfræðideild Háskóla Íslands á undanförnum árum og hefur verið tvöföldun nemendafjölda í verkfræðigreinum síðan 1998 og fjórföldun síðustu 20 árin. Þetta er þróun sem hefur ekki sést hjá nágrannalöndum okkar. Þar hefur innritunum í slíkt nám frekar fækkað á undanförnum árum. Reyndar náði fjöldinn hámarki í HÍ haustið 2003 þegar verkfræðideild útskrifaði 160 nemendur með BS- og MS-gráður. Tækniháskólinn útskrifaði 29 tæknifræðinga árið 2003 en bætti aðeins um í ár með því að útskrifa 38 tæknifræðinga, sem er met. Annars staðar á Norðurlöndum eru tæknifræðingar tvöfalt fleiri en verkfræðingar en hér á landi er þessu öfugt farið. Það er mun meiri þörf á að fjölga iðnaðarmönnum sem fara í tæknifræðinám en að reyna að fjölga verkfræðingum fram yfir það sem HÍ stefnir í.

Verkfræðideild HÍ hóf rannsóknatengt meistaranám um 25 árum eftir að hún hóf fjögurra ára verkfræðinám hér á landi 1970, eða fyrir tæpum tíu árum. Fyrr þótti ekki tímabært að hefja rannsóknatengt meistaranám. Sameinaður háskóli HR og THÍ fyrirhugar að hefja slíkt nám nú þegar. Háskóli Íslands hefur fengið óverulegan stuðning frá ríkisvaldinu við uppbyggingu rannsóknatengds framhaldsnáms. Reiknilíkanið, sem notað hefur verið fyrir grunnnám, dugar ekki óbreytt fyrir meistara- og doktorsnám þar sem hópastærðir í meistara- og doktorsnámi eru langt undir því sem líkanið gerir ráð fyrir. Einnig þarf aukna sérhæfingu til að halda uppi framhaldsnámi og því þarf að fjölga föstum kennurum. Skorir verkfræðideildar hafa 7–10 fasta kennara, en til að halda uppi öflugu og fjölbreyttu framhaldsnámi þyrfti í það minnsta að tvöfalda fjölda fastra starfsmanna. Með þeirri innlendu samkeppni sem ríkisvaldið stuðlar nú að er verið að gera slíkan vöxt nánast ómögulegan á næstu árum. Skilaboðin eru þau að verkfræðideild Háskóla Íslands eigi að leggja áherslu á grunnnám.“

Í lokaorðum þessar efnisgreinar greinar sinnar spyr Valdimar K. Jónsson:

„Er það stefna menntamálaráðuneytisins?“

Það verður auðvitað að fá við því svör í þessari umræðu, hæstv. forseti, hver stefna menntamálaráðuneytisins sé í þessum efnum og hvernig hæstv. menntamálaráðherra sér fyrir sér mögulegt meistaranám í hinni nýju stofnun í ljósi þess hversu illa og hægt hefur gengið að koma á meistaragráðunámi og doktorsnámi við verkfræðideild Háskóla Íslands. Það er ekki skrýtið þótt krafist sé svara við þessum spurningum, þau verða að fást. Þau fengust ekki í störfum nefndarinnar.

Einnig er rétt að geta þess að ekki komu heldur fram upplýsingar í nefndarstarfi okkar frá menntamálaráðuneytinu hver stefna þess væri í þessum efnum eða hvort menntamálaráðuneytið yfir höfuð hugsi sér að tryggja hæfa kennara við þessa nýju stofnun í ljósi þess að hæfnisdómar lektora og dósenta við Tækniháskóla Íslands miðuðust við að þeir kenndu tæknifræði en ekki verkfræði. Það er líka fagleg spurning sem verður að leita svara við úr því að þau fengust ekki í nefndarstarfinu: Hvernig hyggst menntamálaráðuneytið eða hæstv. menntamálaráðherra tryggja hæfa kennara við hina nýju stofnun úr því að ljóst er að hæfnisdómar lektora og dósenta við THÍ miðuðust við að þeir kenndu tæknifræði en ekki verkfræði?

Við vitum öll að með þessari breytingu er verið að leggja aukna áherslu á verkfræðiþáttinn og verkfræðikennsluna. Verið er að draga úr fögum og fækka greinum í tæknifræðinni. Hæstv. menntamálaráðherra ætti því að standa hér í þessum stóli og svara þessum áleitnu spurningum, það er algjörlega nauðsynlegt.

Það er von mín, virðulegi forseti, að færsla þess náms sem kemur til með að verða fært yfir í Háskóla Íslands, þ.e. geislafræði og meinatækni, gangi vel. Eðli málsins samkvæmt og í ljósi þess sem nú er fyrirhugað tel ég þá ráðstöfun af hinu góða úr því að við erum komin inn á þessa braut og úr því að í þessar breytingar stefnir sem mér sýnast óhjákvæmilegar miðað við það hvernig stjórnarliðar hafa tekið á frumvarpinu.

Einnig er rétt að taka fram, hæstv. forseti, að ég lít á það jákvæðum augum að samkomulag skuli hafa náðst við nemendur í frumgreinadeild um framvindu náms þeirra og skólagjöld í því sambandi, en á sama tíma vil ég lýsa áhyggjum af væntanlegri stöðu tæknifræðinnar innan þessarar nýju stofnunar. Eins og ég sagði áðan er verið að fækka greinum í tæknifræði og mér finnst sú staðreynd stangast illilega á við yfirlýsingar eigenda um það að efla beri tæknimenntunina til muna frá því sem nú hefur verið.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að margar af þeim yfirlýsingum sem við lesum í gögnum nefndarinnar frá eigendum Hástoðar ehf. og sömuleiðis yfirlýsingar hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, eru nokkuð hjáróma hvað þetta varðar að það skuli eiga að efla svo gífurlega mikið nám í tæknifræði á sama tíma og fyrir liggur að fækka á greinum í tæknifræði í hinum nýja háskóla. Þetta getur ekki annað en talist vera hjáróma. Finnist hv. þm. Gunnari I. Birgissyni einhverjir hlutir stangast á í málflutningi stjórnarandstöðunnar þá verður ekki annað sagt en að það sama megi segja um málflutning meiri hlutans.

Hæstv. forseti. Það er stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að háskólanám eigi að vera hægt að stunda án skólagjalda. Við teljum að slíkt tryggi efnahagslegt jafnrétti til náms. Til þess að ógna ekki því jafnvægi teljum við einsýnt að auka þurfi það fé sem sett er til starfrækslu þjóðskólans okkar, Háskóla Íslands, og til annarra opinberra háskóla. Þess vegna hefði ég talið það skynsamlegra að reyna til þrautar varðandi sameiningu Tækniháskóla Íslands og verkfræðideildar Háskóla Íslands, frekar en að dreifa kröftunum um of, eins og mér sýnist í uppsiglingu hér. Einnig er nauðsynlegt að stjórnvöld komi sér upp heildstæðri stefnu í málefnum háskóla að okkar mati, bæði hvað varðar háskólakennslu og háskólarannsóknir. Slíka stefnu þarf að vinna í góðu samstarfi við háskólastúdenta, háskólakennara og fræðasamfélagið í heild sinni. En ég verð að segja að sá gerningur sem framkvæmdur er með því frumvarpi sem við ræðum, þ.e. með því að afnema lög um Tækniháskóla Íslands, sé ekki hluti af slíkri stefnumótun. Ég get ekki séð annað en öflug málefnaleg heildarstefnumótun í málefnum háskólasamfélagsins þurfi að bíða betri tíma og er það verulega miður.

Mig langar, hæstv. forseti, áður en ég lýk máli mínu að fara aðeins yfir þá sögu sem ég talaði um áðan, tilraunir Sjálfstæðisflokksins og menntamálaráðherra hans til að einkavæða nám á þessum sviðum, þ.e. hvernig Tækniháskólinn hefur í raun þurft að ganga eilífa þrautagöngu áratugum saman í þessum efnum. Segja má að það séu kannski tveir síðustu áratugirnir sem hafa verið verulega erfiðir fyrir Tækniskóla Íslands, sem nú heitir Tækniháskóli Íslands. Hann var sveltur fjárhagslega, um það er engum blöðum að fletta. Við höfum á annað hundrað milljónir kr. skuldahala stofnunarinnar núna því til staðfestu. Ég treysti mér til að fullyrða að starfslið þessa skóla sem hefur staðið sig með ágætum við að reyna að halda í horfinu hefur ekki alltaf átt sjö dagana sæla við að starfa við þær kringumstæður. Stöðugt var verið að fela skólanum ný og ný verkefni, meinatæknin bættist við, röntgentæknin, rekstrardeildin, en oftar en ekki bættust þessi nýju verkefni á skólann án þess að fjármunir fylgdu frá hinu opinbera, og er það auðvitað gömul saga og ný. Jafnvel má segja að gerð hafi verið aðför að skólanum á áttunda áratugnum þegar mikið var um það rætt og nefndarstarf um það mál meira að segja, að flytja Tækniskóla Íslands til Akureyrar. Þá skapaðist gífurlegt óvissuástand í málefnum skólans og má kannski segja eða túlka það svona eftir á að það hafi verið ákveðin afsökun ríkisvaldsins til að halda að sér höndum varðandi fjárveitingar til skólans.

Síðan varð ekkert af því, ekki var Tækniskóli Íslands fluttur til Akureyrar. En þá var stofnuð nefnd sem var falið það verkefni að kann hvort ekki gæti verið snjallræði að sameina tæknideildir Tækniskólans og verkfræðideild Háskóla Íslands. Á tímabili töldu menn virkilega að það væri fýsilegt og samkomulag mundi nást um það. En í því millibilsástandi sem þá skapaðist héldu stjórnvöld enn að sér höndum með að byggja upp skólann og enn var látið dankast og drabbast. Skólinn safnaði skuldum og það var óviðunandi starfsaðstaða í skólanum, bæði fyrir nemendur og kennara.

Svo má segja að frumgreinadeildinni hafi verið ógnað með hugmyndum um að fólk ætti bara að geta tekið það nám sem aðfaranám í öldungadeildum menntaskólanna án nokkurra námslána. Frumgreinadeildin var því í hættu en það endaði samt þannig að horfið var frá því að breyta henni. En þó var fyrsta önnin af fjórum í deildinni felld niður og hún starfar ekki í dag.

Segja má að allan tíunda áratuginn hafi sama stríðið staðið um fjárveitingar til skólans. Við sem settumst á Alþingi fyrir einum sex árum vitum að eitt af því fyrsta sem við upplifðum varðandi þrengingar í skólamálum var þetta ótrúlega fjársvelti Tækniskólans og voru utandagskrárumræður og talsverðar umræður um þau mál á þeim tíma þegar ég var að setjast hér á þing. Á þeim tíma voru komnar upp þessar vangaveltur hæstv. menntamálaráðherra um einkavæðingu skólans og það hlyti að verða lausnin á öllu, alfa og ómega alls.

Ég man ekki betur en mikið hafi verið rætt um það að Rafiðnaðarskólinn tæki að sér rekstur skólans og það var mikið húllumhæ og gott ef ekki var skrifað undir einhverjar viljayfirlýsingar í því sambandi líka en svo fór það eins og það fór, allt á rassinn, eins og menn muna.

Síðan var það vorið 2002, eftir langa mæðu, að þáverandi hæstv. menntamálaráðherra, Tómas Ingi Olrich, kom í gegnum Alþingi frumvarpi til laga um Tækniháskóla Íslands. Loksins var að því komið að Tækniháskólinn fengi þó þá viðurkenningu sem honum hafði borið árum saman, þ.e. hann yrði formlega færður upp á háskólastig. Því var fagnað í þessum sal að loksins skyldu málefni skólans vera komin í höfn og loksins skyldi rofa til í málefnum skólans og að því er virtist, a.m.k. í nefndaráliti menntamálanefndar frá þeim tíma, ætti að standa af verulegum metnaði við bakið á Tækniháskólanum nýja. Og það voru sérstök fagnaðarlæti í nefndaráliti menntamálanefndar, sem var einróma áliti sínu, sem lesa má á þskj. 1248 frá 127. löggjafarþingi.

Ég vil fá að vitna í nefndarálitið, hæstv. forseti, en það lýsir vel þeim vilja og hug sem ég þóttist skynja hjá Alþingi á þeim tíma. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ákvæði frumvarpsins um stjórnsýslu háskólans eru í samræmi við lög um háskóla en auk þess eru ýmis ákvæði frumvarpsins sambærileg ákvæðum laga um Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Með þessu er stuðlað að samræmi á milli þessara háskóla og jafnframt lagður traustari grunnur að auknu samstarfi Tækniháskólans við aðra skóla á háskólastigi.“

Virðulegi forseti. Hér er hinum nýja Tækniháskóla Íslands líkt við aðra opinbera háskóla okkar og lýst yfir vilja til þess að aðrir skólar á háskólastigi geti átt samstarf við hinn öfluga nýja skóla. Þetta var vonarstjarnan og nefndin tók undir það að ekkert væri því til fyrirstöðu að námsframboð háskólans gæti beitt sér í framtíðinni þótt aðaláherslan yrði lögð á tæknimenntun. Þar talaði nefndin um að tæknimenntunin yrði í fyrirrúmi í nýjum tækniháskóla.

Á þeim tíma lagði menntamálanefnd líka mikla áherslu á að Tækniháskóla Íslands yrði gert kleift að hafa samstarf við fyrirtæki og rannsóknarstofnanir atvinnulífsins á fjölbreyttum grunni. Nefndin taldi mikilvægt að efla slíkt samstarf og styrkja. Ég held að sú skoðun nefndarinnar hafi sýnt að þingmenn og þingheimur allur virtist sammála um að nýr tækniháskóli væri öflug viðbót meðal opinberra tækniháskóla. Ég get ekki séð annað en að við göngum nú, rúmlega tveimur árum síðar, á bak orða okkar. Undir niðri hefur verið unnið að því í menntamálaráðuneytinu að einkavæða nýja tækniháskólann og því var aldrei neinn fótur fyrir því að hann ætti að fá að blómstra eða standa tryggum fótum ásamt öðrum háskólum. Í mínum huga er því ógnað sem við töldum okkur setja af stað fyrir rúmum tveimur árum, með þeirri breytingu sem nú er gerð.

Hæstv. forseti. Ég gæti haft fleiri orð um sveltistefnu Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum, þá stefnu sem virðist leynt og ljóst rekin gagnvart þeim stofnunum hins opinbera sem Sjálfstæðisflokkurinn ætlar sér að einkavæða. Tækniskóli Íslands og Tækniháskóli Íslands núverandi hafa fengið að þola þá sveltistefnu svo að um munar. Það er búið að svelta Tækniháskólann inn á braut einkavæðingar. Meira að segja allir starfsmenn skólans og nemendur telja að það sem fram undan er geti aldrei orðið verra en það sem að baki er.

Hæstv. forseti. Mér finnast þetta ekki viðunandi vinnubrögð. Við ættum auðvitað að stunda lýðræðislega opna umræðu um málefni háskólastigsins og finna farsælustu lausnirnar í þeim málum sem við viljum breyta eða bæta. Við eigum ekki að fara að eins og Sjálfstæðisflokkurinn í þessum málum, að hann skuli ná að draga Framsóknarflokkinn með sér á asnaeyrunum út í þetta fen enn og aftur er náttúrlega með hreinum ólíkindum, sérstaklega þegar yfirlýsingar og flokkssamþykktir framsóknarmanna eru skoðaðar í þessum efnum. Sá flokkur reynir enn að halda í félagshyggjustimpilinn en það fer að verða ansi máð og dauf mynd af þeim stimpli í flokksskírteinum framsóknarmanna.

Við eigum eftir að spyrja spurningarinnar um hversu mikið framlag ríkissjóðs til Lánasjóðs íslenskra námsmanna kemur til með að hækka við þessa breytingu. Allir vita að námslánin eru ekki ókeypis. Þau eru niðurgreidd af ríkissjóði sem er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt. Þegar við leggjum auknar lánabyrðar á herðar stúdentum erum við líka að leggja auknar skuldbindingar á ríkissjóð. Ég vil fá svör við því við þessa umræðu, ef hæstv. starfandi menntamálaráðherra heyrir til mín: Hversu mikið hækka skuldbindingar Lánasjóðs íslenskra námsmanna og ríkissjóðs vegna þeirra breytinga sem hér er verið að gera þegar nemendur Tækniháskóla Íslands verða settir inn í einkaskóla, læstir inn í einkaskóla sem tekur há skólagjöld? Þessari spurningu verður auðvitað að svara.

Eitt hefur gleymst í umræðunni, hæstv. forseti. Það er sú staðreynd að þessi sameinaði háskóli ætlar sér ekki eingöngu að kenna verkfræðingum, rekstrarfræðingum, viðskiptafræðingum og lögfræðingum eða hvað það er sem kemur til með að fara inn í þennan nýja sameinaða háskóla. Það kemur fram í viljayfirlýsingu frá stofnun einkahlutafélagsins sem á að taka yfir þennan rekstur að einnig eigi að stofna deildir í kennslufræði. Það hefur ekki verið rætt um það í nefndarstarfi menntamálanefndar hvað ætlast sé fyrir í þeim efnum. Mér finnst sá þáttur vera svo veigamikill að við hljótum að verða að gefa því gaum við þessa umræðu hvað hið nýja einkahlutafélag ætlast fyrir í þeim efnum.

Við höfum rætt við hæstv. menntamálaráðherra Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur um það sem hún kallar sportakademíu eða íþróttaháskóla á Suðurnesjum. Það hefur komið fram í þingsölum að það eigi að votta það nám sem til boða stæði í þeirri nýju stofnun sem Hástoð ehf. ætlar að reka. Hæstv. forseti. Ég bið um umræður um kennslufræðideild þessa nýja skóla. Mér finnst ekki óeðlilegt að við fáum umræðu um þau áform nákvæmlega í umræðum um þetta máli. Með afnámi laga um Tækniháskóla Íslands erum við að rótfesta þá nýju stofnun og öll þau áform sem menntamálaráðherra hefur skrifað undir í viljayfirlýsingunni fyrir einkahlutafélagið Hástoð ehf.

Að lokum vil ég segja, hæstv. forseti, að í ljósi þeirra grundvallarsjónarmiða sem fram koma í nefndaráliti mínu á þskj. 796 og í þessari ræðu þá legg ég til að frumvarpið verði fellt. Ég legg til að í staðinn axli stjórnvöld ábyrgðina á því að efla tæknimenntun á háskólastigi í skapandi samvinnu við aðila á vinnumarkaði og tryggi jafnframt viðgang verkfræðideildar Háskóla Íslands, ekki hvað síst hvað varðar meistara- og doktorsnám.