131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[17:11]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir greinargott svar. Það er ljóst hver stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er í málefnum háskólanna á Íslandi. Ég get hins vegar ekki, í tilefni af því sem hér kom fram, séð að neitt í þessu frumvarpi leiði til þess að hægt sé að draga þær ályktanir að með því sé vegið að Háskóla Íslands með einum eða neinum hætti. Það er ekki verið að taka neitt af Háskóla Íslands með þessu frumvarpi eða vega að hagsmunum hans.

Mig langar til að víkja að öðru atriði í nefndarálitinu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Það liggur fyrir að greinum í tæknifræði verður fækkað og það er mat 2. minni hluta að sú staðreynd stangist á við yfirlýsingar eigenda um að efla beri tæknimenntunina til muna frá því sem verið hefur.“

Ég hlýt að spyrja, í ljósi þeirra yfirlýsinga sem fram hafa komið frá stjórnendum Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík: Hvar finnur hv. þingmaður þeirri fullyrðingu sinni stað?

Okkur barst m.a. svar frá Guðfinnu Bjarnadóttur þar sem fjallað er um tæknifræðinámið og þar segir m.a., með leyfi forseta: „Háskólinn sér mikil tækifæri í að hlúa að tæknimenntun í landinu og auka áhuga nemenda á að sækja þetta nám í stærri og öflugri háskóla.“

Síðar í svarinu segir, með leyfi forseta: „Efnislegt innihald allra námsbrauta í tæknifræði helst óbreytt en áherslusvið verða skýrð.“

Og enn segir í svarinu, með leyfi forseta: „Það vantar tæknimenntað fólk á Íslandi og eitt af leiðarljósum nýja háskólans er að stuðla að tækniþróun og eflingu hátækniiðnaðar á Íslandi. Áhugi á sameiningu HR og THÍ er fyrst og fremst kominn til vegna áhuga á að efla tækni- og verkfræðimenntun í landinu og búa til stærri og öflugri háskóla.“

Í ljósi þessa hlýtur maður að spyrja: Hvað hefur hv. þingmaður fyrir sér í því þegar hún segir að tæknigreinum verði fækkað og á þá námsgrein verði gengið með hinu nýja frumvarpi?