131. löggjafarþing — 74. fundur,  15. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[18:53]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég ætla ekki að tefja þetta lengi eða meira. Mig langar að vita tvennt eftir þessa stuttu ræðu hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur. Í fyrsta lagi hvort hún telji æskilegt að koma upp tæknifræðinámi við annan skóla en þennan hlutafélagsskóla, svo sem Iðnskólann í Reykjavík eða Háskóla Íslands eftir atvikum. Í öðru lagi vil ég vekja athygli þingmannsins á þessu orðalagi á fyrstu síðu í nefndaráliti hennar og fleiri þingmanna í meiri hlutanum, með leyfi forseta:

„Hvað varðar skólagjöldin kemur fram í svörunum að innheimta þeirra geri skólanum kleift að efla námið enn frekar og það muni því styrkja stöðu háskólans í samkeppni við erlenda tækniháskóla.“

Það sem mig langar til að spyrja um, vegna þess að þetta kemur fram ekki bara sem svar heldur líka sem afstaða meiri hlutans: Á þetta einungis við um þennan skóla eða á þetta kannski við um fleiri skóla? Á þetta við t.d. um Háskóla Íslands, að innheimta skólagjalda þar, almennra skólagjalda í grunnnámi, muni gera skólanum kleift að efla námið enn frekar og styrkja stöðu háskólans í samkeppni við erlenda háskóla?