131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Réttur foreldra vegna veikinda barna.

139. mál
[12:02]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. félagsmálaráðherra um rétt foreldra vegna veikinda barna en réttur þeirra er hverfandi hér á landi samanborið við önnur Norðurlönd. Vinnuveitendur greiða einungis 10 veikindadaga að hámarki fyrir börn undir 13 ára aldri án tillits til hver sjúkdómurinn er, fjölda barna eða hjúskaparstöðu foreldra. Þennan rétt er ekki hægt að flytja á milli ára, t.d. ef barn er veikt í 14 daga í einu og 10 veikindadagar er allt sem foreldrar fá alveg sama hve börnin eru mörg. Annars staðar á Norðurlöndum nær rétturinn ýmist til 16 eða 18 ára aldurs barna og heimilaður dagafjöldi nær til hvers barns um sig innan fjölskyldunnar, t.d. 120 dagar á ári fyrir hvert barn í Svíþjóð síðast þegar ég skoðaði þetta. Auk þess er athyglisvert að annars staðar á Norðurlöndunum greiðir hið opinbera að mestu bætur vegna launataps aðstandenda sjúkra barna. Hér á landi er slíkur stuðningur enginn ef undan eru skildar umönnunarbætur til að mæta útgjöldum og kostnaði vegna fatlaðra og langveikra barna.

Nauðsynlegt er að undirstrika rækilega að umönnunarbætur bæta ekki tekjutap foreldra í veikindum barna en eru hugsaðar til að mæta auknum útgjöldum og kostnaði vegna fatlaðra barna. Þótt umönnunarbætur hafi aukist verulega á umliðnum árum eru bæði barnabætur og réttur foreldra frá vinnu í veikindum barna án launataps mun minni hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum. Því er líka rétt að halda til haga að það er ekki bara að réttur foreldra vegna vinnu í veikindum barna er sláandi minni hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum heldur eru réttindi barna og foreldra þeirra líka almennt miklu betur tryggð annars staðar á Norðurlöndunum en hér á landi. Býnt er að bæta veikindarétt foreldra vegna allra barna eins og lagt var upp með í þeirri tillögu sem samþykkt var á Alþingi 2002, en þar er kveðið á um að Alþingi feli ríkisstjórninni að skipa nefnd sem hafi það verkefni að gera tillögur um hvernig unnt sé að tryggja betur rétt foreldra til launa í fjarveru úr vinnu vegna veikinda barna. Að þeirri nefndarskipan áttu að koma tvö ráðuneyti auk aðila vinnumarkaðarins og samtaka um málefni barna. Í starfi sínu átti nefndin að hafa hliðsjón af fjármögnun og fyrirkomulagi réttinda sem gilda um bætur fyrir launatap aðstandenda sjúkra barna og átti að leggja niðurstöðu fyrir Alþingi árið 2002 á haustþingi.

Ég vil undirstrika að þótt brýnt sé að bæta veikindarétt foreldra vegna allra barna, eins og tillaga okkar gerði ráð fyrir á árinu 2002, er ekkert eins brýnt og að bæta þegar og setja í forgang að bæta veikindarétt foreldra vegna langveikra barna. Nógu lengi hafa foreldrar langveikra barna beðið úrlausnar í málinu og hljóta allir að sjá að erfiðleikar foreldra eru nægir fyrir, bæði félagslegir og fjárhagslegir, þó ekki bætist við að foreldrar geti ekki verið hjá langveikum börnum í veikindum þeirra og allir sjá að atvinnuöryggi þeirra hlýtur að vera alvarlega ógnað líka þegar réttur þeirra í þessu efni er ekki viðurkenndur. Ég vænti þess að fá skýr svör ráðherra um úrbætur í þessu efni.