131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Réttur foreldra vegna veikinda barna.

139. mál
[12:05]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir þann áhuga sem hún hefur sýnt þessu mikilvæga máli og vil nota tækifærið til að greina frá mikilvægum skrefum sem við erum að stíga í fyrsta sinn hér á landi til að koma til móts við þennan viðkvæma hóp í samfélagi okkar.

Frá árinu 2001 hefur verið starfandi nefnd sem ætlað var að fjalla um aukinn rétt foreldra langveikra barna á vinnumarkaði. Skipun nefndarinnar átti rætur sínar að rekja til stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum langveikra barna frá árinu 2000. Sú nefnd var skipuð á sambærilegum grunni og kveðið var á um í þingsályktun þeirri sem samþykkt var á Alþingi og þingmaðurinn rakti, um aukinn rétt foreldra vegna veikinda barna. Þótti því eðlilegt að fela þeirri nefnd að fjalla jafnframt um efni þingsályktunarinnar í stað þess að skipa nýja nefnd.

Nú er svo komið að nefndin hefur mótað tillögur sínar og ég kynnti þær í ríkisstjórn í gær. Skemmst er frá því að segja að ríkisstjórnin samþykkti fyrir sitt leyti að ríkið komi í framtíðinni til móts við foreldra langveikra barna og fatlaðra barna með greiðslum úr ríkissjóði. Samþykkt hefur verið að leggja til við Alþingi að foreldrar langveikra eða fatlaðra barna eigi rétt á greiðslum í allt að þrjá mánuði þegar börn veikjast alvarlega eða greinast með alvarlega fötlun. Lagt er til að greiðslurnar nemi um 90 þús. kr. á mánuði. Voru m.a. fjárhæðir fullra umönnunargreiðslna og lágmarksgreiðslna úr fæðingarorlofssjóði fyrir 50%–100% starf hafðar til hliðsjónar við ákvörðun þeirrar fjárhæðar.

Við innleiðingu á kerfinu er lagt til að það taki gildi í áföngum. Þannig er gert ráð fyrir greiðslu í einn mánuð á fyrsta ári eftir að framkvæmd hefst, tveimur mánuðum á öðru ári og að á þriðja árinu komi kerfið að fullu til framkvæmda.

Að auki hefur verið samþykkt að leggja til við Alþingi að aukinn réttur komi til þegar um er að ræða mjög alvarleg veikindi eða fötlun. Staðreyndir sýna að um 40 börn veikjast mjög alvarlega eða greinast með mjög alvarlega fötlun á hverju ári þannig að annað foreldrið geti ekki stundað vinnu til lengri tíma. Þegar slíkar aðstæður koma upp hefur ríkisstjórnin samþykkt að foreldrar barnanna eigi rétt á framangreindum greiðslum í allt að níu mánuði.

Á sama hátt og varðandi þriggja mánaða réttinn er gert ráð fyrir að kerfið verði tekið upp í áföngum. Þannig komi fyrstu þrír mánuðirnir til framkvæmda á fyrsta árinu, ári síðar bætist þrír mánuðir við og á þriðja árinu verði rétturinn orðinn fullir níu mánuðir. Skilyrði fyrir greiðslunum yrði, hvort sem rétturinn væri til þriggja eða níu mánaða, að foreldrar legðu tímabundið niður launað starf á sama tíma, en gert er ráð fyrir að um sameiginlegan rétt foreldra verði að ræða sem þeir geti skipt sín í milli að eigin vild. Áhersla er lögð á að ríkissjóður greiði jafnframt launatengd gjöld ofan á greiðslur til foreldra þannig að foreldrar haldi áfram uppsöfnun tiltekinna réttinda, svo sem lífeyrisréttinda. Enn fremur er gert ráð fyrir því að foreldrar eigi þess kost að greiða áfram til stéttarfélaga á þeim tíma.

Ég er þeirrar skoðunar að leggja beri áfram áherslu á að foreldrar haldi virkum tengslum við vinnumarkaðinn þrátt fyrir veikindi barna sinna. Eins og flestum er kunnugt um hefur verið litið á það sem hlutverk aðila vinnumarkaðarins að semja um rétt foreldra til fjarveru frá vinnu vegna veikinda barna í kjarasamningaviðræðum sín á milli. Samkvæmt kjarasamningum eiga foreldrar rétt á 7–10 daga fjarveru á ári hverju en fjöldi daga er misjafn eftir kjarasamningum einstakra félaga. Það gat því vart talist á verksviði umræddrar nefndar sem slíkrar að fjalla um þau tilteknu réttindi enda þá farið inn á svið kjarasamninga.

Hins vegar er skoðun mín að mikilvægt sé að starfsmenn mæti ákveðnum skilningi af hálfu vinnuveitenda þegar þeir þurfa að vera fjarverandi vegna tilfallandi veikinda barna. Ýmsar leiðir eru færar í þessu efni en auk sveigjanlegs vinnutíma má nefna tímabundið hlutastarf eða heima- eða fjarvinnu sem er að verða æ algengari með bættri tækni.

Hæstv. forseti. Það er og hefur verið þýðingarmikið að foreldrar eigi þess kost að leita til sjúkra- og styrktarsjóða stéttarfélaga sinna á a.m.k. fyrstu þremur mánuðunum af veikindum barnsins og eins og fram kemur í drögum að tillögum umræddrar nefndar. Þannig er gert ráð fyrir að foreldrar nýti fyrst rétt sinn hjá styrktar- og sjúkrasjóðunum fyrir þann tíma en síðan taki við þær greiðslur sem ríkið greiðir. Það fellur þó ávallt í hlut sérhvers styrktar- og sjúkrasjóðs stéttarfélags að ákvarða reglur sínar um greiðslur til foreldra vegna veikinda barna þeirra og ljóst að sjóðirnir eru misjafnlega í stakk búnir til að veita þau réttindi. Það er mikilvægt að fyrstu skrefin á þeirri braut sem við höfum ákveðið að feta séu stigin með stefnufestu og varfærni í senn. Reynslan verður síðan nýtt til að meta stöðuna á þessu sviði.

Ég legg áherslu á það og útiloka alls ekki að við munum þegar innleiðingu þessa nýja réttar er lokið halda áfram að efla réttarstöðu foreldra langveikra barna á vinnumarkaði. Rétt er að undirstrika að framangreindar tillögur tryggja foreldrum langveikra barna ekki leyfi frá störfum af þeim sökum. Því hefur ríkisstjórnin samþykkt að samhliða rétti til greiðslna úr ríkissjóði verði aldursmörk barna varðandi rétt foreldra til foreldraorlofs samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof hækkuð úr 8 ára aldri í 18 ára aldur. Með því er veitt aukið svigrúm fyrir foreldra til að vera heima hjá börnum sínum þegar sérstakar aðstæður gefa tilefni til, en foreldrar eiga rétt á foreldraorlofi í 13 vikur til að annast börn sín.