131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Réttur foreldra vegna veikinda barna.

139. mál
[12:11]

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Ég vil eins og síðasti hv. ræðumaður þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að hreyfa málinu og eins taka undir árnaðar- og hamingjuóskir til hæstv. félagsmálaráðherra því að yfirlýsingu hans ber sannarlega að fagna. Þetta eru tímamót því eins og fram kom bæði hjá hv. fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra er réttur vegna langveikra barna í dag enginn, en með yfirlýsingunni er verið að stíga afskaplega mikilvæg skref. Þetta eru tímamót að foreldrar langveikra barna geti verið heima allt frá þremur mánuðum og jafnvel upp í níu mánuði í alvarlegustu tilvikum og eins hækkun á aldri vegna foreldraorlofs.

Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað að þetta er gæfuríkt skref sem verið er að stíga og tek jafnframt undir með hæstv. ráðherra að mikilvægt er að vinnuveitendur sýni málinu skilning sem stjórnvöld hafa mótað og lýst yfir og ég fagna því.