131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Réttur foreldra vegna veikinda barna.

139. mál
[12:16]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka þær undirtektir sem þetta mál fær í sölum þingsins. Hér er vissulega brýnt viðfangsefni sem við tökumst á við og ég vænti þess að við gerum það í sameiningu. Mér heyrast viðbrögðin ekki benda til annars.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spyr hvenær vænta megi þess að hér líti dagsins ljós frumvarp sem tekur á þessum breytingum. Ég vonast til þess að það verði á þessu vori. Samþykkt ríkisstjórnarinnar frá því í gær gerir ráð fyrir gildistöku um næstu áramót þannig að fjárlagafrumvarp fyrir árið 2006 beri þessa merki.

Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir spurði mig tveggja spurninga sem ég verð að viðurkenna að ég kann ekki svörin við. Báðar heyra líka kannski frekar til friðar hæstv. heilbrigðisráðherra. Þannig vill til að þetta mál er á mínu borði vegna þess að það snertir vinnumarkaðsmál og rétt foreldra til fjarveru frá vinnu. En þarna er vissulega hreyft mikilvægum spurningum sem hljóta að koma til skoðunar við útfærslu málsins.

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin hefur, eins og fram kom í máli mínu áðan, samþykkt þessar tillögur. Mér var það mikilvægt að fá tækifæri til að kynna þær fyrst hér á Alþingi þar sem þingmenn hafa látið sig málið miklu varða, ekki síst hv. fyrirspyrjandi. Ég mun beita mér fyrir því að sjálfsögðu að þessar tillögur komist sem fyrst til framkvæmda enda er það skoðun mín að það sé mikilvægt að samfélagið í heild, bæði ríkisvaldið og samtryggingarkerfi aðila vinnumarkaðarins, komi til móts við þær fjölskyldur sem lenda í þeim aðstæðum sem hér eru til umræðu.

Við þekkjum flest dæmi um það að fótunum er nánast kippt undan fólki þegar langvarandi veikindi eða fötlun barna er annars vegar. Okkur ber beinlínis skylda til að taka á þeim málum og það er verið að gera nú.