131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Réttur nemenda í framhalds- og háskólanámi til húsaleigubóta.

513. mál
[12:18]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég beini hér spurningu til hæstv. félagsmálaráðherra sem hljóðar svo:

Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að nemendur í framhalds- og háskólanámi, sem verða að búa á heimavist eða leigja sér húsnæði vegna fjarlægðar frá skóla, öðlist rétt til húsaleigubóta þótt þeir eigi lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi?

Eins og lögin nú kveða á um eiga þeir leigjendur rétt á húsaleigubótum sem leigja íbúðarhúsnæði til búsetu og eiga þar lögheimili. Hins vegar gilda sérstakar reglur um námsmenn en í lögunum um húsaleigubætur segir, með leyfi forseta:

„Dveljist maður hérlendis við nám utan þess sveitarfélags þar sem hann átti lögheimili er námið hófst og á þar skráð aðsetur getur viðkomandi átt rétt til húsaleigubóta þrátt fyrir skilyrði 1. mgr. um lögheimili í leiguíbúð. […]

Undanþága þessi gildir einnig um námsmenn sem eru í námi á framhalds- eða háskólastigi og leigja á heimavist eða á námsgörðum.“

Hér er réttur nemandans til húsaleigubóta bundinn því að nám sé sótt í annað sveitarfélag en þar sem hann á lögheimili. Sveitarfélögin eru bundin af lögum og geta ekki brugðist við upp á sitt eindæmi. Þetta skiptir gríðarlegu máli varðandi einstaka nemendur. Það er nógu mikill kostnaður að þurfa að sækja skóla heiman frá sér þó að þarna sé ekki líka misrétti á.

Við stækkun sveitarfélaga hefur komið enn berlegar í ljós að í þeim geta nemendur búið það fjarri framhaldsskóla að þeir geti ekki sótt námið í heimagöngu og þurfi þá að búa á heimavist. Vegna þess að það er í sama sveitarfélagi eiga þeir ekki rétt á húsaleigubótum. Þetta er t.d. veruleiki núna fyrir unglinga í Skagafirði sem stunda nám við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki enda hafa foreldrar á Hofsósi og nágrenni sent bréf og vakið athygli á því að unglingarnir þeirra hafa orðið af húsaleigubótum vegna þess að skólinn er í sama sveitarfélagi. Sveitarfélagið gat ekki gengið þar á svig við lögin.

Þetta gildir ekki aðeins um íbúa í Skagafirði, Fljótum, Hofsósi, Lýtingsstaðahreppi og Skaga, þetta er sama vandamál og getur orðið uppi varðandi Menntaskólann á Egilsstöðum og Framhaldsskóla Neskaupstaðar, Húsavík og Akureyri, hvar sem er. Ég tel afar brýnt að á þessu máli verði tekið og spyr hæstv. félagsmálaráðherra hvernig hann hyggist bregðast við þessari stöðu.