131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Réttur nemenda í framhalds- og háskólanámi til húsaleigubóta.

513. mál
[12:25]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og það að þessi mál séu í þessari formlegu skoðun en ég hefði viljað sjá þau ganga mun hraðar. Þetta skiptir máli varðandi nemendur akkúrat þessa stundina. Ég veit hvernig staðan var í Skagafirði. Þar hafði sveitarfélagið fyrst ætlað að horfa dálítið rúmt á lögin en þá fékk það ekki sinn hlut viðurkenndan frá félagsmálaráðuneytinu, mótframlag ríkisins. Foreldrum var þá sent bréf um að sveitarfélagið gæti ekki orðið við þessu. Ef nemendur sækja annan skóla, eins og ef nemendur úr Skagafirði sæktu skóla á Akureyri eða til Reykjavíkur eða hvert annað sem er, eiga þeir rétt á þessum húsaleigubótum. Ekki veitir nú af í stuðningi við fjárhagslegan kostnað við að senda nemendur að heiman.

Það skiptir líka heilmiklu máli fyrir ungt fólk og fyrir samfélagið að það geti sem lengst átt sama lögheimili og sterk tengsl við heimabyggð sína þannig að lög og reglur hreki þau ekki burt. Nóg eru nú samt vandkvæðin við það að þurfa að sækja nám fjarri heimili sínu.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að taka enn þá sterkar á þessu. Ég skil vilja hans og met þá afstöðu hans að þetta eigi að gera. En þetta skiptir máli nú þegar, og þetta skiptir máli þegar nemendur fara að sækja um skólavist nú seinni part vetrar, velja hvert þeir fara í skóla. Allt svona skiptir máli. Þess vegna tel ég að lagabreyting eigi að liggja (Forseti hringir.) fyrir nú þegar á þessum vetri.