131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja.

499. mál
[12:32]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson hefur beint til mín spurningum um þjónustu Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja.

Svarið við fyrri spurningunni er einfalt, hvort ráðherra hyggist grípa til einhverra aðgerða til að koma í veg fyrir að skurðstofu Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja verði lokað í a.m.k. sex vikur í sumar: Það er verið að fara yfir allar rekstrarforsendur stofnunarinnar í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu með það í huga að koma í veg fyrir að skurðstofunni verði lokað. Ég á von á því að það takist að koma í veg fyrir það.

Heilbrigðisstofnunin er rekin með halla og hefur verið rekin með nokkrum halla undanfarin ár, 12,5 millj. árið 2003, 20 millj. árið 2004 og hann stefnir í 33,4 millj. fyrir árið 2004, 20 millj. samkvæmt rekstraráætlun en stefnir í 33,4 millj. Uppsafnaður halli í árslok 2004 stefnir því í 95,8 millj. kr. sem nemur um 20% af fjárlögum 2005 fyrir stofnunina.

Fjárveitingar til Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja á árinu 2005 eru um 485 millj. kr. sem skiptast þannig að framlög til heilsugæslusviðs eru rúmlega 90 millj., til sjúkrasviðs tæplega 318 millj. og vegna hjúkrunarrýma rúmlega 77 millj. Stofnunin hefur 19 sjúkrarými og 16 hjúkrunarrými. Mér sýnist, borið saman við aðrar heilbrigðisstofnanir, að hér sé ekki naumt skammtað til Vestmannaeyja en stofnunin hefur kynnt ráðuneytinu ýmsar aðgerðir til að ná niður rekstrarhalla fyrir árið 2005. Engu að síður er gert ráð fyrir að hallinn nemi um 10 millj. kr. Hins vegar tel ég alveg ljóst að stofnunin verði að vinna að aukinni samnýtingu á vöktum enda er vaktakostnaðurinn mjög stór hluti heildarrekstrarkostnaðar stofnunarinnar. Ég tel að þar megi tvímælalaust ná hagræðingu. Afar brýnt er að bakvaktir manna verði í auknum mæli sameiginlegar.

Virðulegi forseti. Sérstaða Vestmannaeyja með tilliti til samgöngumála er öllum vel þekkt. Áhersla hefur verið lögð á að öflug og örugg heilbrigðisþjónusta standi íbúunum til boða árið um kring. Ég stefni að því að svo verði áfram, bæði með því að viðhalda tryggri sjúkrahúsþjónustu sem og sjúkraflutningum þegar á þarf að halda. Tvennt þarf að tryggja, öryggi íbúanna og skynsamlegan rekstur. Annað markmiðið þarf ekki að útiloka hitt.