131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja.

499. mál
[12:36]

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ekki fannst mér alveg nægilega skýrt það svar sem kom hér frá hæstv. ráðherra heilbrigðismála. Það gengur einfaldlega ekki að skurðstofu í Vestmannaeyjum verði lokað í sumar. Það er ekki hægt að auglýsa að bannað sé að veikjast alvarlega meðan skurðstofa er lokuð, sérstaklega ef ekki er hægt að komast til fastalandsins.

Það sem mér fannst hæstv. ráðherra segja okkur var að verið væri að leita leiða til að koma í veg fyrir að skurðstofunni yrði lokað en mér fannst hann ekki segja okkur að búið væri að negla það niður að hún yrði opin í allt sumar. Það er munur í mínum huga á því að leita leiða, skoða rekstur og reyna að finna fjármuni til að halda skurðstofunni opinni eða lofa því bara og segja: Það gengur ekki að loka skurðstofu á stað eins og Vestmannaeyjum. Við munum halda henni opinni. Á þessu er munur í mínum huga og vona ég að hæstv. ráðherra kveði skýrar að orði þegar hann kemur í seinna svar sitt.