131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja.

499. mál
[12:40]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Mér finnast þessar umræður dálítið sérkennilegar hjá hv. fyrirspyrjanda og hv. 10. þm. Suðurk. Ég hélt að það hefði komið mjög skýrt fram í svari mínu að við erum að vinna að því í ráðuneytinu að tryggja fjármuni til þess að halda skurðstofunni opinni. Það er vilji okkar ef það hefur verið eitthvað óljóst í svari mínu, sem það var auðvitað ekki. Þess vegna er verið að vinna að þessu. Við erum að tryggja fjármuni til þess að halda skurðstofunni opinni. Sá er vilji okkar og við höfum lagt á það áherslu, eins og ég sagði í svari mínu, að öflug og örugg heilbrigðisþjónusta standi íbúunum til boða árið um kring. Það er ekkert annað sem hangir hér á spýtunni og mér finnst dálítið sérkennilegt að vera að reyna að draga úr því. Þess vegna erum við að vinna að þessu máli og það eru engin undirmál í því. Ég hef látið þá skoðun mína í ljósi að öryggi íbúanna verði tryggt með því að halda skurðstofunni opinni og loka henni ekki. Þess vegna er verið að reyna að finna fjármuni í það. Það er bara hrein niðurstaða í þessu máli.