131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Erfðabreytt aðföng til landbúnaðar.

404. mál
[12:50]

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Hér fara fram mjög fræðilegar umræður um erfðabreytt efni í fóðri. Ég þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir að taka þetta mál upp því að auðvitað skiptir miklu máli að sá sem kaupir fóður viti hvað er í því, að rekjanleikinn sé í lagi, allt umhverfið sömuleiðis og Aðfangaeftirlitið geri það sem það á að gera.

Þetta sýnir, ef við lítum á íslenskan landbúnað, hvað það er gott að búa að sínu og mikilvægi þess að hér fari fram meiri kornrækt en verið hefur. Hún er alltaf að aukast, bæði til fóðurgerðar og eins til ölgerðar. Þess vegna kom ég hér upp til þess að við leiddum aðeins hugann að því hvað það skiptir miklu máli að búa að sínu.