131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Erfðabreytt aðföng til landbúnaðar.

404. mál
[12:51]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að mjög mikið er í undirbúningi, enda eru þjóðirnar allt í kringum okkur kannski miklu betur vakandi en við, hinn almenni borgari, hvað varðar áhættu af erfðabreyttum lífverum og því að neyta erfðabreyttra matvæla.

Mér finnst mikilvægt, hæstv. forseti, að þar sem meginlínurnar í samningnum sem verið er að undirbúa liggja fyrir sé þegar hafist handa við að koma þeim upplýsingum til matvælaframleiðenda, sérstaklega þeirra sem eru með kjúklinga- og svínaræktina. Með breyttum matarvenjum Íslendinga er alveg ljóst að við neytum miklu meira af þessari vöru, bæði kjúklingum og svínakjöti. Ef í ljós kemur að þetta er hugsanlega ekki eins holl matvara og af er látið vegna þess að uppistaðan í fóðrinu er erfðabreyttur maís og sojamjöl held ég að við hljótum að gera þá kröfu að sem fyrst verði reynt að snúa þessari fóðurgjöf á betri veg þannig að við neytum þá hollari matvæla og að það sé frumskilyrði að þeir kjúklingar sem eru framleiddir með erfðabreyttu fóðri séu sérstaklega merktir þannig að við höfum val. Það höfum við ekki í dag.

Ég tek undir orð hv. þm. Drífu Hjartardóttur að það er mikilvægt að hlúa að íslenskri framleiðslu og íslenska bygginu og því vil ég vara við að farið verði út í stórfellda framleiðslu á erfðabreyttu byggi að svo stöddu.