131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Erfðabreytt aðföng til landbúnaðar.

404. mál
[12:53]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu. Ég get auðvitað sagt hér að hér erum við að ræða stórt neytendamál, ekki bara landbúnaðarmál heldur mjög stórt neytendamál. Það skiptir miklu máli fyrir landbúnaðinn og ekki síður sérstöðu okkar Íslendinga hvað hinar hreinu afurðir varðar og hollu vörur að hér flæði ekki inn eitthvað sem er framleitt með allt öðrum hætti og gæti reynst neytendum þess vegna hættulegt. Það skiptir máli eins og hér hefur verið sagt að sá sem kaupir fóður viti hvað í fóðrinu er og hvað hann er að bjóða dýrunum sínum, og það snertir einnig neytendur landsins.

Eins og kom fram í máli hv. þm. Drífu Hjartardóttur er mikið að gerast í íslenskum sveitum. Veðráttan hefur breyst. Bændurnir hafa náð miklum tökum á t.d. kornræktinni. Við eigum orðið 400 kornbændur. Hér hafa vísindamenn okkar við RALA, nú Landbúnaðarháskóla Íslands, þróað mjög sterk afbrigði sem eru að gera það mjög gott. Við erum á mikilli framtíðarleið sem skiptir landbúnaðinn og íslenska neytendur miklu.

Það er mikilvægt að hafa þetta skýrt og reglurnar í lagi. Að því er unnið eins og ég hef farið yfir og ég þakka þessa umræðu.