131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Þjónustutilskipun Evrópusambandsins.

282. mál
[13:35]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagði á síðasta ári fram tillögu að heildarskipun þjónustustarfsemi á innri markaðnum og tillagan er nú til umfjöllunar, eins og hv. þingmaður nefndi, í Evrópuþingi og ráðherraráði Evrópusambandsins. Það er ekki búist við því að tillagan hljóti endanlega afgreiðslu hjá þessum stofnunum fyrr en í fyrsta lagi í lok þessa árs.

Frelsi til að veita þjónustu er hluti af hinu svonefnda fjórþætta frelsi og því ein af meginstoðum EES-samningsins og af þeim sökum er ljóst að efni þessarar tillögu varðar málefni sem fjallað er um í EES-samningnum. Tillagan miðar að því að ryðja úr vegi þeim hindrunum sem gera fyrirtækjum og einstaklingum erfiðara um vik að stunda viðskipti með þjónustu. Þannig er tillögunni er ætlað að stuðla að auknu frjálsræði í viðskiptum með þjónustu á innri markaðnum. Íslensk stjórnvöld eru fylgjandi því meginmarkmiði tillögunnar að auka frelsi í viðskiptum.

Á hinn bóginn eru vitaskuld ýmis atriði í svo umfangsmikilli tillögu sem nauðsynlegt er að skoða mjög vandlega áður en endanleg afstaða verður tekin til þess hvort slík tilskipun verði tekin upp í EES-samningnum. Ríkisstjórnir nokkurra ríkja Evrópusambandsins, eins og hv. þingmaður nefndi, svo sem eins og Frakkar og Þjóðverjar hafa sett fyrirvara við ýmsa þætti þessarar tillögu. Það má því búast við átökum og líflegri umræðu um hana á næstu mánuðum og fastlega gera ráð fyrir því að tillagan kunni að taka einhverjum breytingum verði hún á annað borð samþykkt. Íslensk stjórnvöld fylgjast auðvitað grannt með þessari umræðu sem á sér stað, en slík tilskipun verður ekki formlega til umfjöllunar meðal EFTA-ríkjanna fyrr en afgreiðslu hennar er lokið hjá Evrópusambandinu. Það er þess vegna ekki að fullu tímabært að fullyrða neitt á þessari stundu um hvort tilskipunin verður tekin upp í EES-samningnum enda ekki hægt að fullyrða hvort tillagan verði samþykkt og þá hvaða breytingar kunna að verða á henni.

Á hinn bóginn tel ég gott að máli af þessu tagi sé hreyft hér þannig að það hafi fengið umþóttun og umræðu áður en málið ber upp við okkur á vettvangi EFTA-ríkjanna eða heima hjá okkur sjálfum.

Varðandi spursmálið sem hv. þingmaður nefndi, hvort utanríkisráðuneytið eða utanríkisráðherra mundi beita neitunarvaldi, eins og það er orðað, gagnvart þessari gerð sem taka ætti upp í EES-samninginn þá er kannski umhugsunarefni eða a.m.k. umdeilanlegt hvort hægt sé að tala um beint neitunarvald í því sambandi. En það koma upp og hafa komið upp álitaefni um það hvort tilteknar gerðir falli undir EES-samninginn og íslensk stjórnvöld hafa hafnað upptöku gerða í EES-samningnum þegar þau hafa talið að viðkomandi gæti fallið utan gildissviðsins. En það er kannski ekki endilega, eins og ég sagði hér áðan, spursmálið í þessu tilviki.

Á hinn bóginn er einnig hægt í tilviki Íslands, þ.e. ef það eru atriði sem okkur líst ekki á eða hugnast ekki þá getum við auðvitað beðið um það og fylgt því eftir að aðlögun sé fyrir hendi gagnvart Íslandi ef sérstakar aðstæður kalla á það. Ef það gengur ekki er auðvitað hugsanlegt einnig að hafna algerlega upptöku gerðarinnar í samninginn. Ef ekki næst samkomulag innan sameiginlegu EES-nefndarinnar getur því farið svo að framkvæmd viðkomandi viðauka við EES-samninginn, þ.e. viðaukinn sem gerðin félli undir yrði a.m.k. frestað. Það þýddi að þær gerðir sem þegar væri búið að taka upp í samninginn á því sviði væru ekki í gildi. Það er því mín skoðun að skoða verði mjög vel miðað við allar aðstæður hverju sinni og hvaða hagsmunir eru í húfi þegar menn velta fyrir sér hvort þeir ætla að standa að því eða hafna því að gerðir af þessu tagi eða sambærilegar séu teknar upp í EES-samninginn ef menn meta málið svo að upptaka þeirra mundi geta hnigið gegn grundvallarhagsmunum Íslands. Ég hef alltaf haldið því fram og geri það enn að við höfum áskilið okkur þann rétt að hafna því með sjálfstæðum hætti að taka upp slíkar gerðir. Við gætum þó hugsanlega lent í því, og það er rétt að menn viti af því, að Evrópusambandið beitti okkur viðbrögðum, eins konar refsiviðbrögðum, ef svo má segja, og þá er bara mat á því af hálfu okkar hvort hagsmunirnir séu þess virði að taka slíka áhættu. Við eigum ekki fyrir fram nokkru sinni að útiloka neitt.

En í meginatriðum fellur hugsun þessarar gerðar að fjórfrelsinu, sem er eitt grundvallaratriði innan Evrópusambandsins og EES-svæðisins. Að því leyti til virðist það svo að tillagan lúti að því að auka frjálsræði á þessum sviðum. En við eigum að skoða okkar hagsmuni mjög vel og vandlega og ekki horfa fram hjá þeim í fljótræði bara vegna þess að þetta sé afgreitt á vettvangi annars staðar.