131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Þjónustutilskipun Evrópusambandsins.

282. mál
[13:40]

Þuríður Backman (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svörin — utanríkisráðherra. Ég vil taka það fram að ég trúi að hin nýja ásýnd hæstv. utanríkisráðherra sem birtist í dag hafi ruglað mig aðeins í ríminu. En að öllu gamni slepptu þá finnst mér mjög mikilvægt að fylgst sé mjög vel og grannt með þessari tilskipun. Íslenskur vinnumarkaður er lítill og viðkvæmur og við höfum fengið að kynnast núna þeim breytingum sem hafa orðið með tilkomu starfsmannaleigna á íslenskan vinnumarkað við stærri framkvæmdir. Þetta er bara smjörþefurinn sem við fáum með starfsmannaleigunum. Maður sér það fyrir sér að ef þessi tilskipun verður tekin upp eins og hún lítur út í dag muni það hafa mjög alvarlegar afleiðingar á íslenskum vinnumarkaði. Ég hvet íslenska ráðamenn og þá utanríkisráðuneytið sérstaklega til þess að vera vel á varðbergi.