131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Trúnaðarstörf sendiherra fyrir stjórnmálaflokka.

450. mál
[13:52]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég spyr hæstv. utanríkisráðherra að gefnu tilefni um trúnaðarstörf sendiherra fyrir stjórnmálaflokka. Annars vegar er spurt:

Hvaða núverandi sendiherrar gegna trúnaðarstörfum fyrir stjórnmálaflokka? Átt er við t.d. opinber nefndarstörf á vegum stjórnmálaflokka sem viðkomandi þiggur laun fyrir, launaðan erindrekstur á þeirra vegum og fleira af því tagi. Því er spurt að sendiherrar og aðrir starfsmenn utanríkisþjónustunnar búa samkvæmt lögum nr. 39/1971 við þau starfsskilyrði að þeim er óheimilt að vinna önnur störf nema sérstaklega standi á og samþykki utanríkisráðherra komi til. Þetta er í 14. gr. Hér er væntanlega átt við launuð störf af einhverju tagi eða þau störf önnur sem telst óheppilegt að þeir vinni.

Ég vek athygli á að ráðherra getur heimilað að starfsmenn vinni slík störf og þess vegna hefur hann fulla yfirsýn um þau störf sem nú eru unnin með hans leyfi og sjálfsagt að hann skýri þinginu frá því hver þau eru og hvaða ástæður liggja að baki ákvörðun hans um að leyfa slík störf. Ég tek líka fram að ég tel að þessi heimild geti í mörgum tilvikum verið fullkomlega eðlileg.

Hvað varðar störf sendiherra fyrir stjórnmálaflokka verður þó að segjast að mér finnst það skynsamleg regla að sendiherrar og aðrir starfsmenn utanríkisþjónustunnar vinni ekki slík störf. Það getur vel verið að það þyki heimilislegt í Valhöll að þegar formaður Sjálfstæðisflokksins er utanríkisráðherra fái hann fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins sem er sendiherra til að setjast í pólitíska nefnd fyrir Sjálfstæðisflokkinn en það þykir ekki heimilislegt annars staðar. Slík ráðstöfun er — við skulum orða það vægilega — á mörkum hins siðlega og hún stangast á við anda laganna sem hér um ræðir. Þetta sérstaka ákvæði og einstaka hefur væntanlega þann tilgang að tryggja að starfsmenn utanríkisþjónustunnar, sendiherrar og aðrir, eigi sér engan annan húsbónda en íslenska lýðveldið og forustumenn þess. Að menn eigi sér aukalegan húsbónda í tilteknum stjórnmálaflokki á meðan þeir gæta hagsmuna þjóðarinnar á erlendum vettvangi getur ekki verið skynsamlegt þegar menn litast um eftir að þeir eru komnir upp úr víggröfunum.

Forseti. Ég spyr einnig um hugsanleg fordæmi í þessu efni og hef leyft mér að setja tímamörkin við lýðveldisstofnunina. Ég verð þó að viðurkenna að ég hef ekki athugað orðalag fyrri laga, þeirra sem lögin 1971 tóku við af, og get fullkomlega sætt við mig við að svar hæstv. ráðherra miðist við þann upphafspunkt, 1971.