131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Trúnaðarstörf sendiherra fyrir stjórnmálaflokka.

450. mál
[13:55]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Varðandi þá fyrirspurn sem hér liggur fyrir er því til að svara að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum gegnir enginn núverandi sendiherra utanríkisþjónustunnar trúnaðarstörfum fyrir stjórnmálaflokk, þó með þeirri undantekningu sem hv. þingmaður nefndi ef menn líta svo á að seta Þorsteins Pálssonar, fyrrum forsætisráðherra og dómsmálaráðherra, í stjórnarskrárnefnd sé þjónustu- og trúnaðarstarf fyrir stjórnmálaflokk.

Varðandi seinni liðinn eru ekki eftir því sem ég best veit kunn fordæmi fyrir því að starfandi sendiherra hafi gegnt trúnaðarstörfum fyrir stjórnmálaflokka. Það er jafnframt ljóst að utanríkisráðherrann hefur heimild, og hann hefur einn þá heimild, til að tilnefna starfsmenn utanríkisþjónustunnar til sérstakra starfa utan hennar en það verður auðvitað ekki gert nema ástæða sé til þess.

Vegna þess sem hv. þingmaður nefndi um hvað væri heimilislegt í Valhöll og annars staðar man ég ekki betur en að ég hafi séð myndir af þeim hv. þingmanni með sendiherra á lokuðum stjórnmálafundi án þess að sá þingmaður hafi risið upp, gert athugasemd og krafist þess að viðkomandi yrði vísað út úr salnum. Þegar maður á borð við Þorstein Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og dómsmálaráðherra, tekur að sér að fá skipun í stjórnarskrárnefnd lít ég svo til, hver sem tilnefnir hann, að eftir það sitji hann þar á eigin forsendum í nefnd sem vinnur að því sameiginlega að huga að breytingum á stjórnarskrá landsins. Til þeirra verka fær hann engin fyrirmæli frá mér eða öðrum, hefur ekki sóst eftir þeim og ekki fengið þau, um hvernig hann eigi að vinna þau störf heldur gerir það eftir hæfileikum sínum og getu. Það er einmitt þess vegna sem hann er skipaður til þessara starfa, vegna menntunar sinnar, mikillar reynslu, faglegrar þekkingar og almennt séð augljósra og ég vil leyfa mér að halda óefaðra hæfileika til að fást við þetta verkefni.

Þorsteinn Pálsson hefur bæði sem þingmaður og ráðherra setið í fjölmörgum nefndum þar sem vandaverk hafa verið til skoðunar og hefur gert það afar vel. Hann hefur mikið traust til þessa verkefnis hygg ég af hálfu allra réttsýnna og rökfastra manna, að taka þátt í því að vinna að þessu starfi af fullkomnum heilindum með hag allra landsmanna í huga með sama hætti og aðrir nefndarmenn sem að þessu starfa. Ég tel að hér sé ekki um neitt erfitt fordæmi að ræða nema síður væri. Ég fagna því að hann fékkst til þessa verkefnis. Að svo miklu leyti sem það er starf fyrir stjórnmálaflokk er heimild til þess veitt af mér eins og gefur augaleið samkvæmt þeim fulla rétti sem ég hef og samkvæmt því mati sem ég lagði á það að það væri í þágu nefndarinnar, starfa hennar og væntanlega úrlausnar og niðurstaðna að fá þennan hæfa mann til þessa verkefnis.